Ekkert lát á átökum í Mið-Afríkulýðveldinu

Frá átakasvæðum í Mið-Afríkulýðveldinu.
Frá átakasvæðum í Mið-Afríkulýðveldinu. AFP

Að minnsta kosti 75 hafa látist í átökum á milli kristinna og múslíma í bænum Boda í Mið-Afríkulýðveldinu síðan á þriðjudaginn í síðustu viku. Múslímar reistu virki umhverfis bæinn og hröktu síðan kristna á brott. Ekkert lát er á átökunum í landinu sem hafa kostað þúsundir manna lífið og fjöldi fólks er á vergangi.

Hópur íslamskra öfgamanna sem kallar sig Seleka, steypti stjórn landsins í mars í fyrra og síðan þá hefur óöld ríkt í landinu. Tilraunir franskra og afrískra friðargæsluliða til að stilla til friðar hafa engan árangur borið. Í síðustu viku tilkynnti Alþjóðabankinn að hann myndi veita Mið-Afríkulýðveldinu lán upp á hundrað milljónir Bandaríkjadollara og á að nota fjármagnið til að veita íbúum landsins nauðsynlega þjónustu.

Tilkynnt var um lánið skömmu eftir að Catherine Samba-Panza sór eið sem forseti Mið-Afríkulýðveldisins, fyrst kvenna, en vonir hafa verið bundnar við að hún muni koma á friði í landinu.

Fjölmörg ríki og alþjóðastofnanir hafa látið í ljós áhyggjur af ástandinu í landinu, þeirra á meðal er UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, sem segir ofbeldi gagnvart börnum í landinu vera fordæmalaust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert