20.000 skólastofur í Mið-Afríkulýðveldinu

Börn í Mið-Afríkulýðveldinu stila sér brosandi upp fyrir myndatöku í …
Börn í Mið-Afríkulýðveldinu stila sér brosandi upp fyrir myndatöku í bænum Yaloke, norðan við Bangví. AFP

Á næstunni munu um 20.000 skólabörn í Mið-Afríkulýðveldinu hefja skólagöngu í tímabundnu skólahúsnæði sem Unicef hefur sett upp. Börnin hafa þurft að flýja heimili sín vegna óaldar sem hefur geisað þar í landi frá því í lok ársins 2012.

Allir skólar í höfuðborg landsins, Bangui, hafa verið lokaðir síðan í byrjun desember á síðasta ári. Unicef hafa í samstarfi við ýmsa aðila sett upp meira en 100 tímabundnar skólastofur á svæðum þar sem flóttafólk heldur til. Yfir 40 skólastofur eru þegar starfandi og 160 kennarar hafa fengið þjálfun til að kenna börnum á aldrinum þriggja til fimm ára.

Unicef mun einnig setja upp samskonar aðstöðu í Bossangoa og nærliggjandi svæðum í norðvesturhluta landsins þar sem fólk hefur snúið aftur til heimila sinna, en komið að skólabyggingum í rúst.

„Ef börnin geta ekki farið aftur í skólann þá á skólinn að koma til þeirra,“ segir Judith Léveillée, fulltrúi Unicef í Mið-Afríkulýðveldinu. „Þetta er hugsunin á bak við þessar tímabundnu skólastofur. Um leið og búið er að tryggja öryggi á tilteknu svæði þá er það að nemendur og kennarar geti komið aftur í skólann stórt skref í átt að friði,“ segir hún.

Tímabundið skólahúsnæði er þó aðeins skammtímalausn og Unicef mun styðja menntamálaráðuneyti landsins í að enduropna formlega skóla landsins um leið og aðstæður leyfa.

Unicief hefur lagt flóttabúðum til búnað til að setja upp 500 námsaðstöður á þeim 20 svæðum í Bangui þar sem flóttafólk hefur komið saman. Meðal þess sem er innifalið í þessu eru kennslubækur, kennslugögn, ritföng og útbúnaður til íþróttaiðkunar og listsköpunar.

Rétturinn til menntunar er í hvað mestri hættu á átakatímum. Skólar veita börnum ekki eingöngu nauðsynlega menntun, heldur eru þeir einnig mikilvægur þáttur í því að ná áttum eftir að átökunum lýkur, segir fulltrúi Unicef. 

Nærri helmingur íbúa Bangui hefur þurft að flýja átök og býr í flóttamannabúðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert