Kvendjöfull með ásjónu engils

Er hún kvendjöfull eða engill? Amanda Knox við réttarhöld eftir …
Er hún kvendjöfull eða engill? Amanda Knox við réttarhöld eftir áfrýjunina árið 2011. AFP

Er hún kvendjöfull eða indæl og einföld? Allt frá því að Amanda Knox varð miðdepill morðmáls á Ítalíu árið 2007 hefur leyndarhjúpur umvafið persónu hennar. Ítalskur dómstóll dæmdi hana til 28 ára fangelsisvistar fyrir morðið á meðleigjanda sínum, Meredith Kercher, í síðustu viku. Málið hefur þvælst á milli dómstiga á Ítalíu frá því það var fyrst tekið fyrir. Knox hefur ýmist verið sakfelld eða sýknuð. Hún er bandarísk og býr nú í heimalandinu. Hún neitar að fara til Ítalíu til að afplána dóminn og spurningar hafa vaknað um hvort hún verði framseld.

Mörgum fannst mjög ólíklegt að hin sakleysislega og bláeygða Knox gæti hafa myrt vinkonu sína með hrottafengnum hætti. En fljótlega fóru margir að þykjast sjá að bak við sléttu og fögru ímyndina væri „djöfulleg“ sál.

Ítölsku saksóknararnir drógu upp mjög neikvæða mynd af henni. Þeir sögðu hana lostafulla, neyta eiturlyfja, stunda partí og oft taka ókunnuga karlmenn með sér heim til að stunda kynlíf. Þá hefði hún hneykslað meðleigjendur sínar ítrekað með því að skilja titrara og djörf undirföt eftir fyrir allra augum.

Þeir sögðu að Kercher hefði verið myrt þar sem hún hefði neitað að taka þátt í kynlífsleik með Knox,  þáverandi kærasta hennar, Raffaele Sollecito, og innflytjandanum Rudy Guede. Kercher var 21 árs og fannst nakin í blóðpolli íbúðinni. Hún hafði verið skorin á háls.

Knox var sakfelld fyrir morðið í desember árið 2009. Hún hlaut 26 ára fangelsisdóm en var svo sýknuð í október árið 2011.

Í síðustu viku var hún svo enn og aftur fundin sek og dæmd til rúmlega 28 ára fangelsisvistar. Kærastinn fyrrverandi fékk 25 ára fangelsisdóm.

Knox sagði í yfirlýsingu að dómurinn væri „óréttlátur“ og að hún væri „hrædd og sorgmædd“. Hún sagði í viðtali við dagblaðið Guardian að hún væri „brennimerkt“.

Fjölskylda Knox hefur lýst henni með allt öðrum hætti en saksóknararnir. Foreldrar hennar segja hana „ástríka“ og segja hana hafa talað af ástúð um Kercher. Hún fékk einnig stuðning frá mörgum samlöndum sínum. Í leiðara í New York Times árið 2009 var hún m.a. sögð kölluð „sakleysinginn“ (e. An Innocent Abroad).

Knox áfrýjaði dómnum sem hún fékk árið 2009 og er málið var tekið fyrir spurði hún: „Hvernig er það mögulegt að ég hafi beitt slíku ofbeldi? Hvernig hefði ég getað verið svona grimm við vinkonu mína?“

Kvendjöfull eða engill?

Er fyrst komst upp um hið hrikalega morð var Knox þegar í stað ýmist kölluð „kynþokkafulla Knox“, sem var reyndar nafn sem hún sjálf notaði á samfélagsvefnum My Space, eða „engillinn“. Bók sem gefin var út um mál hennar hét einmitt Angel Face. Er bókin kom út fór Knox að njóta mikils stuðnings í Bandaríkjunum.

Málið var mjög umtalað meðan það var í rannsókn. Annað slagið láku út upplýsingar um rannsóknina sem ýmist varð til þess að fólk efaðist um sakleysi hennar eða fékk tröllatrú á sekt hennar. Mörgum fannst einnig að hún hefði ekki fengið réttláta málsmeðferð. Ekki bætti úr skák að vinir hennar frá Seattle báru henni ekki allir vel söguna. Aðrir komu henni til varnar og stofnaðir voru stuðningshópar sem héldu því fram að brengluð mynd væri dregin upp af hinni góðhjörtuðu Knox í fjölmiðlum.

Verjendur hennar reyndu hvað þeir gátu að tæta í sig fullyrðingar um að hún væri drottnunargjörn í kynlífi, „femme fatale“, sem lokkaði veiklynda menn til lags við sig. 

Er mál Knox var tekið fyrir í fyrsta skipti hélt Knox þegar fram sakleysi sínu og sagðist hafa logið að lögreglunni við skýrslutökur. Sagði hún lögregluna hafa þjarmað að sér og yfirheyrslurnar hafa staðið tímunum saman. Þá hefði hún ekki fengið að hafa lögfræðing sinn viðstaddan.

Knox var engu að síður sakfelld og sat inni í fjögur ár. Tímanum eyddi hún m.a. við lestur bóka Dostojevskis og Hemingways. Þá sagðist hún hafa beðið bænir.

Knox kom fram í fjölda viðtala og sagði sig dreyma um frelsið. Hún sagðist vilja verða þýðandi eða rithöfundur, að hún væri náttúruunnandi, þráði að verða móðir og hefði áhuga á búddisma jafnt sem kristni.

Aftur í skóla

Er hún var sýknuð árið 2011 og sleppt úr fangelsi hóf hún tungumálanám að nýju í Háskólanum í Washington. Hún gaf einnig út endurminningar sínar, Waiting to be Heard.

Kærastinn fyrrverandi gaf einnig út endurminningar sínar, Honor Bound: My Journey to Hell and Back with Amanda Knox. Í bókinni, sem byggð er m.a. á dagbókum, velti hann því m.a. fyrir sér hvar Knox hefði verið nóttina sem morðið var framið og sakaði hana um að hegða sér furðulega.

Hann sagði að þau hefðu reykt marijúana hið örlagaríka kvöld og að það hefði orðið til þess að hugsun hans varð þokukennd. Hann sagðist því ekki fullviss hvort Knox hefði verið hjá sér - eða yfirgefið íbúðina - og dró þar með fjarvistarsönnun hennar í efa. Þá sagði hann engin takmörk fyrir furðulegri hegðun hennar.

Amanda Knox við fyrstu réttarhöldin árið 2008.
Amanda Knox við fyrstu réttarhöldin árið 2008. EPA
Amanda Knox við réttarhöldin árið 2011. Hún var þá sýknuð.
Amanda Knox við réttarhöldin árið 2011. Hún var þá sýknuð. EPA
Amanda Knox í viðtali við ABC sjónvarpsstöðina daginn sem hún …
Amanda Knox í viðtali við ABC sjónvarpsstöðina daginn sem hún var sakfelld enn á ný í síðustu viku. EPA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert