Pútín ögrað í New York

Liðskonur Pussy Riot létu Vladimír Pútín, forseta Rússlands, heyra það á tónleikum Amnesty International í New York í gærkvöldi við fögnuð þúsunda tónleikagesta, þar á meðal Madonnu.

Þær Nadezhda Tolokonníkova og María Aljokhína sátu í rússneskum fangabúðum í tæp tvö ár fyrir pönkmessu sem þær fluttu í kirkju í Moskvu í febrúar 2012. Þeim var veitt sakaruppgjöf í desember sl.

Tónleikarnir í gærkvöldi þykja enn eitt merkið um kólnandi samskipti á milli Bandaríkjanna og Rússlands í kjölfar þess að Rússar veittu uppljóstraranum Edward Snowden, tímabundið hæli.

Fjölmargir komu fram á tónleikunum í gærkvöldi þar á meðal Madonna sem hrósaði þeim Tolokonníkova og Aljokhína fyrir hugrekki sem þær hafi sýnt. Að sögn Madonnu fékk hún líflátshótanir eftir að hafa lýst opinberlega yfir stuðningi við Pussy Riot á tónleikum í Moskvu í ágúst 2012. Sakar Madonna stjórnvöld í Rússlandi um að dreifa áróðri gegn samkynhneigðum.

Hún segir að það sé tími til kominn að heimurinn sýni sama hugrekki og Pussy Riot og standi upp gegn fólki eins og Pútín og öðrum þjóðarleiðtogum og samtökum sem virða ekki mannréttindi fólks.
„Ég nýt þeirra forréttinda og það er heiður minn dömur mínar og herrar að kynna Nadezhda og Mariu úr Pussy Riot,“ sagði Madonna er hún kynnti þær stöllur á svið í Brooklyn í gærkvöldi.  Brutust út gríðarleg fagnaðarlæti við þessi orð Madonnu.

„Við munum ekki fyrirgefa og við munum ekki gleyma því hvað stjórnin er að gera þjóð okkar. Við krefjumst frelsis fyrir Rússland,“ sagði Tolokonníkova. 

Það voru mannréttindasamtökin Amnesty International sem skipulögðu tónleikana og er var staðurinn bókstaflega troðinn en alls rúmar hann 18 þúsund manns. 

Blondie, með Debbie Harry fremsta í flokki, slógu í gegn með gömlu slögurunum Call Me og One Way or Another.

En meðal þeirra sem komu fram á tónleikunum voru Imagine Dragons, Flaming Lips, Cake, the Fray og Cold War Kids.

Söngkonan Lauryn Hill kom einnig fram og kynnir kvöldsins var leikkonan Susan Sarandon. Á tónleikunum voru spiluð skilaboð frá tónlistarmönnunum Peter Gabriel og Sting sem gátu ekki verið á staðnum en vildu sýna stuðning sinn í verki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert