Einn lifði af – 77 fórust

Leitarhópar kemba nú svæðið í kringum flak herflugvélarinnar sem hrapaði í Alsír í gær með þeim afleiðingum að 77 fórust. Einn maður lifði slysið af. Í fyrstu var talið að um 103 hefðu verið um borð í vélinni og að þeir hefðu allir farist.

Þriggja daga þjóðarsorg hófst í landinu í dag. Vélin var af gerðinni C-130 Hercules og um borð voru 74 farþegar, hermenn og fjölskyldur þeirra, auk fjögurra manna áhafnar. Vélin hrapaði í fjalllendi í norðausturhluta landsins 

Hópur sérfræðinga kom á slysstaðinn í morgun. „Björgunarmenn og sporhundar hafa nú byrjað leit á svæðinu,“ segir talsmaður neyðaraðstoðar á svæðinu.

Sá sem lifði slysið af hlaut alvarleg höfuðmeiðsl og hefur verið fluttur á sjúkrahús. Þá hafa lík þeirra sem fórust nú einnig verið flutt af slysstað.

Flugriti vélarinnar, svokallaður svartur kassi, hefur enn ekki fundist. Vélin var á leið frá eyðimerkurbænum Tamanrasset til borgarinnar Constantine. Er vélin nálgaðist borgina rofnaði allt samband við hana. Umhverfis Constantine eru mikil fjöll sem gera skilyrði til lendingar á flugvellinum oft erfið.

Vont veður, með mikilli snjókomu, var í gær er vélin hrapaði.

Sérfræðingar rannsaka flak og umhverfi vélarinnar.
Sérfræðingar rannsaka flak og umhverfi vélarinnar. AFP
Vélin hrapaði í fjalllendi sem er í um 1.500 km …
Vélin hrapaði í fjalllendi sem er í um 1.500 km hæð yfir sjávarmáli. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert