Mannskætt óveður vestanhafs

Bandaríkjamenn fengu heldur betur að finna fyrir kuldabola í gærkvöldi og nótt en víða er rafmagnslaust og flugferðum aflýst. Óveðrið hefur haft áhrif á daglegt líf íbúa í 22 ríkjum Bandaríkjanna, allt frá Texas til Maine. Tíu hafa látist í óveðrinu.

Talsvert hefur snjóað á svæðinu frá höfuðborginni Washington upp til Boston og snjóar þar enn. Er því spáð að snjóhæðin verði um 20 cm á þessu svæði.

Samkvæmt upplýsingum BBC frá veðurfræðingum er stormurinn nú einn sá versti sem hefur herjað á Atlanta, stærstu borg suðurríkjanna, frá árinu 1973. Þar hafa verið sett upp neyðarskýli þar sem íbúar geta sótt aðstoð, mat, teppi og rafmagnsofna.

Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, hefur heitið því að alríkisstjórnin muni veita ríkjum aðstoð en hann lýsti yfir neyðarástandi í Suður-Karólínu og hluta af Georgíu.

Að minnsta kosti tíu hafa látist í óveðrinu. Þar á meðal þrír þegar sjúkrabíll fór út af í hálku í Texas. Þúsundir ökutækja sitja fastar á þjóðvegum í kringum Raleigh í Norður-Karólínu og hafa fjölmargir gefist upp á vistinni í bílunum og lagt af stað fótgangandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina