Dæmdur morðingi reyndi sjálfsvíg

Bandaríski blaðamaðurinn Daniel Pearl.
Bandaríski blaðamaðurinn Daniel Pearl. mbl.is

Maðurinn sem dæmdur var í lífstíðarfangelsi fyrir morðið á bandaríska blaðamanninum Daniel Pearl reyndi að fremja sjálfsvíg í Hyderabad-fangelsinu í Pakistan í gær.

Omar Sheikh, Breti af pakistönskum uppruna, reyndi að hengja sig í klefa sínum í gærkvöldi en fangaverðir náðu bjarga lífi hans. Líðan hans er stöðug en hann á yfir höfði sér refsingu fyrir sjálfsvígstilraunina.

Pearl, 38 ára, starfaði fyrir Wall Street Journal þegar honum var rænt og hann hálshöggvinn í Pakistan árið 2002. Hann starfaði á skrifstofu WSJ í Suður-Asíu og var að vinna að grein um íslamska skæruliða er honum var rænt í Karachi hinn 23. janúar 2002. Myndskeiði sem sýndi aftöku hans var komið til ræðismanns Bandaríkjanna í borginni tæpum mánuði síðar.

Omar var handtekinn ásamt þremur öðrum og dæmdur fyrir morðið á Pearl í júní það sama ár af hryðjuverkadómstól.

Í janúar 2011 var birt skýrsla sem unnin var við Georgetown-háskólann í Washington þar sem því var haldið fram að þeir sem voru dæmdir fyrir morðið á Pearl hefðu ekki átt aðild að því. Skýrslan var unnin undir umsjón fyrrverandi starfsbróður Pearls við Wall Street Journal, Asra Nomani, sem er prófessor við Georgetown-háskóla.

Þar kemur fram að það hafi verið Khalid Sheikh Mohammad, sem er talinn hafa verið hugsuðurinn á bak við hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september 2001, sem myrti Pearl, ekki Omar Sheikh.

Lík Pearls fannst fjórum mánuðum eftir hvarf hans og var búið að aflima það og skera í á annan tug hluta.

Sheikh Mohammed var handtekinn í Pakistan árið 2003 og hefur verið í haldi í Guantanamó-fangabúðunum á Kúbu síðan þá. Dómur hefur ekki enn verið kveðinn upp yfir honum.

Sheikh Mohammed játaði árið 2007 fyrir herrétti að hafa skipulagt hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september 2001. Eins á hann að hafa játað á sig aðild að 30 öðrum hryðjuverkum eða áætlunum um þau.

„Ég bar ábyrgð á árásunum 11. september frá upphafi til enda,“ sagði Mohammed við réttarhöldin, sem fram fóru í Guantanamo á Kúbu.

„Ég bar á því ábyrgð gagnvart Osama bin Laden að skipuleggja og hrinda í framkvæmd árásunum á Bandaríkin,“ sagði Mohammed og fram kemur að hann hafi einnig játað ábyrgð á sprengjutilræðinu í World Trade Center 1993, árásunum á næturklúbba á Bali 2002 og á hótel í Kenýa það sama ár. Svo hafi einnig verið með tilraun „skósprengjumannsins“ svokallaða, Richards Reids, til að sprengja upp bandaríska farþegaþotu. Að auki nefndi hann ýmsar áætlanir, sem ekkert varð úr, til dæmis um árás á Heathrow-flugvöll, skrifstofuhverfið Canary Wharf og Big Ben í London, á skotmörk í Ísrael og áætlun um að sprengja upp Panamaskurðinn.

Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur eftir Mohammed að í kjölfar árásanna 11. september 2001 hafi átt að ráðast á háhýsi í Los Angeles, Seattle og Chicago og á Empire State-bygginguna í New York. Einnig segir að Mohammed hafi játað aðild að samsæri um að myrða Jóhannes heitinn Pál II páfa og Bill Clinton og Jimmy Carter, fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Þá játaði hann að hafa myrt Daniel Pearl í Pakistan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert