Geislavirkt vatn lak í Fukushima

Mynd sem sýnir mengað vatn sem lak úr tanknum í …
Mynd sem sýnir mengað vatn sem lak úr tanknum í kjarnorkuveri TEPCO í Fukushima. AFP

Forsvarsmenn kjarnorkuversins í Fukushima í Japan segja að nýr leki hafi komið í ljós en um 100 tonn af geislavirku vatni láku úr geymslutanki. Þeir segja að þetta hafi uppgötvast er menn tóku eftir því að aðeins einn af níu hitamælum í kjarnakljúf, sem skemmdist í hamförunum árið 2011, virkaði.

Talsmaður Tokyo Electric Power (TEPCO) segir að vatn sé hætt að leka úr tanknum. Að öllum líkindum séu menn búnir að stöðva lekann. Ljóst er að þessar fréttir eru enn eitt áfallið fyrir fyrirtækið sem hefur átt í vök að verjast fyrir að hafa ekki öryggismálin í lagi. 

Talsmaður telur ennfremur ólíklegt að vatnið hafi náð að leka út í sjó þar sem ekkert afrennsli sé í námunda við lekann.

Mörg hundruð tankar eru á svæðinu. Þeir geyma vatn sem er notað til að kæla kjarnakljúfana sem skemmdust í náttúruhamförunum sem riðu yfir svæðið í mars 2011. Tankurinn sem skemmdist er um það bil 700 metra frá ströndinni.

Vatnið í tanknum er mjög geislavirkt eða um 230 milljón bekerel í hverjum lítra, en bekerel er alþjóðleg mælieining fyrir geislun. Til nánari útskýringar, þá mega mælast um 100 bekerel í hverju kílói af matvælum til manneldis og um 10 bekerel í hverjum lítra af neysluvatni.

Ljóst að vatnið er mjög skaðlegt fólki og getur það valdið krabbameini og skaðað erfðaefni manna. Það er hins vegar auðvelt til geymslu en það getur t.a.m. ekki lekið í gegnum þunna álfilmu. 

Talsmaður TEPCO segir að nú sé unnið að því að fjarlægja vatnið sem lak og þann jarðveg sem hefur mengast. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert