Júlía Tímósjenkó leyst úr haldi

Úkraínska þingið hefur samþykkt að sleppa Júlíu Tímósjenkó úr fangelsi.
Úkraínska þingið hefur samþykkt að sleppa Júlíu Tímósjenkó úr fangelsi. SERGEI SUPINSKY

Úkraínska þingið samþykkti nú á tólfta tímanum að sleppa Júlíu Tímósjenkó, fyrrverandi forsætisráðherra, úr fangelsi. Líklegt er talið að hún geti losnað úr haldi strax í dag.

Mótmælendur hafa á undanförnum dögum krafist þess að Tímósjenkó, sem er einn helsti stjórnarandstöðuleiðtoginn, verði sleppt úr haldi. 

Tímósjenkó var forsætisráðherra Úkraínu á árunum 2007 til 2010. Eftir að Viktor Janúkóvítsj var kjörinn forseti var hún ákærð fyrir að hafa misbeitt valdi sínu í tengslum við gassamning sem hún gerði við rússnesk stjórnvöld árið 2009. Hún var dæmd í sjö ára fangelsi árið 2011.

Fregnir herma að Janúkovítsj hafi flúið frá Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, til Kharkiv, sem er borg nálægt landamærum Úkraínu og Rússlands. Þar á hann fjölmarga bandamenn.

mbl.is

Bloggað um fréttina