Morsi sakaður um að leka ríkisleyndarmálum

Morsi er borinn alvarlegum sökum.
Morsi er borinn alvarlegum sökum. EPA

Saksóknarar í Egyptalandi hafa ákært Mohammed Morsi, sem var steypt af stóli forseta í fyrra, fyrir að hafa lekið ríkisleyndarmálum til íranska Byltingarvarðarins. Markmiðið hafi verið að koma á óstöðugleika í Egyptalandi. Þetta kom fram við réttarhöld yfir Morsi, sem er sakaður um njósnir.

Alls eru þrenn réttarhöld hafin í málum gegn Morsi. Stjórnvöld hafa verið í herferð gegn honum og Bræðralagi múslíma, flokki Morsis, frá því herinn steypti honum af stóli í júlí á síðasta ári. 

Saksóknarar saka Morsi og 35 aðra, m.a. leiðtoga Bræðralagsins, um að hafa starfað með erlendum samtökum og ríkjum, m.a. palestínsku Hamas-samtökunum og Írönum, í þeim tilgangi að grafa undan stöðugleika í Egyptalandi.

Réttarhöldin í þessu máli hófust 16. febrúar sl. og í dag er annar dagur aðalmeðferðarinnar. Þar var farið nánar yfir ákæruatriðin.

Fram kom að þeir hefðu lekið ríkisleyndarmálum til erlends ríkis, en ekki var tekið fram um hvaða ríki væri að ræða. Þá segir að þeir hafi komið öryggisskýrslum til íranska Byltingarvarðarins í því augnamiði að draga úr stöðugleika og öryggi Egyptalands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert