Hugleiða refsiaðgerðir gagnvart Rússum

Utanríkisráðherrar ríkja Evrópusambandsins munu ræða refsiaðgerðir gagnvart Rússum á fundi sínum í dag í kjölfar þess að Rússar styðja niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu í Krím um aðskilnað frá Úkraínu. Þetta kemur fram í frétt BBC.

Fundur utanríkisráðherranna hefst klukkan 8:30 að íslenskum tíma í Brussel og þar verður meðal annars rætt um að synja Rússum um vegabréfsáritanir til Evrópusambandsríkja og að frysta eignir rússneskra ráðamanna á bankareikningum.

Mikil fagnaðarlæti brutust út á götum Simferopol, höfuðborgar Krímskagans, í gærkvöld eftir að í ljós kom að mikill meirihluti kjósenda á skaganum, 96,6% samkvæmt fyrstu tölum, samþykkti að segja sig úr lögum við Úkraínu og sameinast Rússlandi.

Héraðsstjórnin í Krím hyggst leggja fram formlega umsókn um aðild að rússneska sambandsríkinu í dag, að sögn Sergiys Aksyonov, forsætisráðherra héraðsins.

Vestrænir leiðtogar fordæmdu atkvæðagreiðsluna og sögðust ekki ætla að viðurkenna niðurstöðurnar. Í sameiginlegri yfirlýsingu sögðu þeir Herman van Rompuy, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins (ESB), og José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, að atkvæðagreiðslan væri ólögmæt og bryti gegn alþjóðalögum. 

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, tók í sama streng en hann sagði við Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, að bandarísk stjórnvöld myndu ekki viðurkenna niðurstöðurnar. Þá sagði William Hague, utanríkisráðherra Bretlands, að atkvæðagreiðslan væri „lítilsvirðing“ við lýðræðið.

Vladímír Pútín, forseti Rússlands, ræddi við Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, símleiðis í gærkvöldi og sagði að atkvæðagreiðslan hefði verið í fullu samræmi við alþjóðalög. Hann lagði jafnframt áherslu á að Rússar myndu virða vilja Krímverja.

Obama sagði við Pútín að Bandaríkin muni aldrei viðurkenna atkvæðagreiðsluna í gær. Hvatti hann Rússa til að fallast á alþjóðlegt eftirlit með landamærahéröðum.

Krímskagi var hluti af Rússlandi frá átjándu öld en Níkíta Krústsjov, þáverandi leiðtogi Sovétríkjanna, gaf Úkraínu héraðið í tilefni af því að 300 ár voru liðin frá sameiningu landanna. Eftir að Úkraína fékk sjálfstæði frá Sovétríkjunum árið 1991 hélt landið yfirráðunum yfir Krímskaga en hins vegar var gerður samningur við Rússa um að þeir héldu herstöðinni í hafnarborginni Sevastopol. Samkvæmt manntali frá árinu 2001 eru Rússar um 58% íbúa Krímskaga, 24% Úkraínumenn og 12% eru tatarar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert