Berháttaði fyrir framan Venus

„Fæðingu Venusar“ eftir Sandro Botticelli.
„Fæðingu Venusar“ eftir Sandro Botticelli. Wikipedia

Spænskur ferðamaður tók upp á því síðastliðinn laugardag að berhátta sig fyrir framan hið fræga málverk „Fæðingu Venusar“ eftir Sandro Botticelli sem hýst er í Uffizi-listasafninu í Flórens á Ítalíu, en málverkið var málað á árunum 1482-1485.

Eftir að hafa staðið í nokkra stund fyrir framan málverkið reif maðurinn, sem er 25 ára að aldri, sig úr öllum fötunum og stillti sér upp á sama hátt og Venus á málverkinu samkvæmt frétt Thelocal.it. Því næst lagðist hann á hnén og dreifði rósablöðum á gólfið. Þegar hér var komið sögu gripu tveir starfsmenn safnsins inn í. Annar reyndi að hylja nekt mannsins með handklæði á meðan hinn hringdi á lögregluna.

Einn safngesta tók mynd af atvikinu og setti hana á internetið. Fór hún strax víða. Maðurinn er sagður hafa kallað „Frelsi, frelsi“ þegar hann var leiddur á brott af lögreglu. Hann var í kjölfarið kærður fyrir ósæmilega hegðun á almannafæri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert