Ebóla mögulega í Kanada

Starfsmenn WHO verja sig fyrir ebóla-veirunni.
Starfsmenn WHO verja sig fyrir ebóla-veirunni. AFP

Heilbrigðisyfirvöld í Kanada greindu frá því í dag að einstaklingur sem nýverið kom til landsins frá Vestur-Afríku hafi verið fluttur alvarlega veikur á sjúkrahús. Óttast er að maðurinn hafi smitast af ebóla-veirunni sem dregið hefur tugi manna til dauða í Gíneu undanfarið.

„Það sem við vitum á þessu stigi málsins er að einstaklingurinn er alvarlega veikur og að hann kom frá landi þar sem sjúkdóm sem þennan má finna,“ sagði Denise Werker, yfirmaður heilbrigðismála í héraðinu Saskatchewan í vesturhluta Kanada, við blaðamenn í dag. Einnig kom fram að einstaklingurinn beri einkenni ebóla-veirunnar.

Ekki hefur verið gefið út hvers kyns sjúklingurinn er, þjóðerni hans eða aldur.

Eins og kom fram á mbl.is í dag þá berjast hjálparstarfsmenn og heilbrigðisyfirvöld við ebóla-faraldur sem brotist hefur út í Gíneu. Að minnsta kosti 59 hafa látist á undanförnum dögum vegna vírussins, aðallega í skógunum í suðurhluta landsins.

Ebóla er einn mannskæðasti vírus í heimi. Hann fannst fyrst í Austur-Kongó árið 1976. Átta faraldrar hafa brotist þar út síðan. 

Varað hefur verið við því að veiran geti breiðst út til annarra landa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert