Fyrsti ebóla-faraldurinn í Vestur-Afríku

Hermenn í Gabon í hlífðarfötum við meðhöndlun sjúklinga þar í …
Hermenn í Gabon í hlífðarfötum við meðhöndlun sjúklinga þar í landi árið 2001. AFP

Hjálparstarfsmenn og heilbrigðisyfirvöld berjast nú við ebóla-faraldur sem brotist hefur út í Gíneu. Þetta er í fyrsta sinn sem ebóla-faraldur greinist í Vestur-Afríku. Óttast er að vírusinn hafi breiðst út til höfuðborgarinnar, Conakry.

Að minnsta kosti 59 hafa látist á undanförnum dögum vegna vírussins, aðallega í skógunum í suðurhluta landsins.

Enn sem komið er hafa engin staðfest tilfelli fundist í höfuðborginni. 

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, segir í yfirlýsingu að ebóla-vírusinn hafi breiðst út á nokkrum svæðum í Gíneu og telur einnig að hann sé að finna meðal höfuðborgarbúa. Yfirvöld segja að enn eigi eftir að fá staðfestingu á því. 

Fulltrúar heilbrigðisráðuneytisins og Alþjóðaheilbrigðismalastofnunarinnar héldu í gær neyðarfund vegna málsins.

Enn eru engin lyf til við ebóla. Milli 25 og 90% þeirra sem smitast af vírusnum deyja. Vírusinn smitast með blóði, saur eða svita eða við kynmök. 

UNICEF segir að í það minnsta þrjú börn hafi þegar látist úr sjúkdómnum. Þá hafi átta heilbrigðisstarfsmenn verið meðal þeirra fyrstu sem létust. Þeir höfðu meðhöndlað sýkt fólk.

UNICEF hvetur íbúa Gíneu til að fara ekki í jarðarfarir og reyna að komast hjá því að komast í snertingu við þá sem eru veikir. Vírusinn getur líka smitast af líkum.

Ebóla er einn mannskæðasti vírus í heimi. Hann fannst fyrst í Austur-Kongó árið 1976. Átta faraldrar hafa brotist þar út síðan. 

Varað er við því að vírusinn geti breiðst út til annarra landa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert