Tók skarpa beygju og lækkaði flug

Japönsk herflugvél sem er ein þeirra sem tekur þátt í …
Japönsk herflugvél sem er ein þeirra sem tekur þátt í leitinni. AFP

Flugvél Malaysia Airlines, sem hvarf fyrir rúmum tveimur vikum, tók skarpa beygju og lækkaði flugið yfir Suður-Kínahafi. Henni var svo flogið að Malacca-sundi, segir heimildarmaður CNN sem tekur þátt í rannsókninni á hvarfi hennar. CNN segir að þetta megi sjá á ratsjárgögnum. Vélinni var flogið í um 12.000 feta hæð um tíma áður en hún hvarf með öllu af ratsjám.

Í frétt CNN segir að svo virðist sem vélinni hafi vísvitandi verið flogið af leið. Að snúa vélinni svo mikið af leið er talið taka um tvær mínútur og hefðu því flugmennirnir haft nægan tíma til að senda neyðarkall, hefði vélin verið biluð eða önnur vandræði verið um borð.

Ekkert neyðarkall barst hins vegar frá flugvélinni. 

Heimildarmaður CNN segir að mikil flugumferð sé á svæðinu sem vélinni var flogið um. En hafi henni verið flogið í aðeins 12.000 fetum hafi slík umferð ekki truflað för hennar.

Kínversk leitarflugvél telur sig nú hafa fundið hluti í Indlandshafi sem gætu verið brak úr vélinni. Viðamikil leit fer fram á svæðinu þar sem hlutirnir sáust, undan ströndum Ástralíu.

Á sunnudag sögðu malasísk yfirvöld frá því að flugleiðin sem slegin var inn í tölvukerfi vélarinnar hefði verið frá Kuala Lumpur til Peking - líkt og til stóð. Það afsannar það að tölvur vélarinnar hafi verið forritaðar upp á nýtt til að breyta um stefnu. Í frétt CNN segir að þetta dragi úr líkum á því að flugmennirnir hafi verið valdir að hvarfi vélarinnar, en útiloki þá ekki.

Frétt CNN.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert