Bara nokkur kíló í viðbót

AFP

Stærð 0 er minnsta fatastærðin í Bandaríkjunum og er stærð sem varla þekktist fyrir nokkrum áratugum. En í dag er þetta stærð sem margar ungar stúlkur þrá, þótt það þýði að þær þurfi að lifa á diet-gosdrykkjum, sígarettum og öðrum vímugjöfum. Svo ekki sé talað um að fylla magann með áti á pappírsþurrkum. Allt fyrir fegurðina – eða er það svo – er það þetta sem fegurðin snýst um?

Útlitsdýrkun er ekki ný af nálinni og mun eflaust alltaf fylgja mannkyninu. Undanfarna áratugi hafa fyrirsætur minnkað að umfangi og velta sumir hönnuðir fyrir sér hvort þeir séu að hanna föt á börn eða konur.

Í viðtali við Guardian árið 2011 sagðist bandaríski tískuhönnuðurinn  L'Wren Scott hanna fatnað á konur, ekki tólf ára gömul börn. „Þú verður að hugsa um viðskiptavini þína - þeir eru konur af öllum stærðum og gerðum út um allan heim, konur með ólíkar þarfir,“ sagði Scott í viðtalinu. En samkvæmt Guardian sagðist hún í viðtali árið 2006 engan áhuga hafa á að hanna fatnað á tólf ára og bætti við: „Þetta er fyrir konur.“

Kate Moss og heróín-útlitið

Um tíma á tíunda áratugnum þótti fátt eins flott og heróín-útlitið. Þegar fyrirsæturnar litu út eins og þær hefðu verið í harðri eiturlyfjaneyslu í langan tíma.

Árið 1993 náði þessi tíska hármarki sínu í auglýsingaherferð Calvin Klein með bresku fyrirsætuna Kate Moss í aðalhlutverki.

Undir lok tíunda áratugarins fór töfraljóminn að hverfa af heróínútlitinu hjá fyrirsætum enda nokkrar fallnar í valinn af neyslu fíkniefna á unga aldri. Moss hefur hins vegar alltaf neitað því að hafa notað heróín og eins að hafa þjáðst af átröskunarsjúkdómi. Hún viðurkennir hins vegar að hafa verið allt of horuð og helsta ástæðan hafi verið tímaskortur. Hún hafi ekki haft tíma til að borða. En hún hefur ekki neitað því að hafa neytt annarra eiturlyfja enda gripin glóðvolg af ljósmyndara við kókaínneyslu um árið.

Móðir ungs tískuljósmyndara gagnrýndi Klein harkalega í kjölfar andláts sonar hennar en hann lést tvítugur að aldri úr nýrnabilun og ofneyslu eiturlyfja.

Umfjöllun New York TimesUmfjöllun Independent

Þegar úrúgvæska fyrirsætan Luisel Ramos lést úr anorexíu í ágúst 2006 var ákveðið að banna fyrirsætur í stærð 0 á tískuvikunni í Madríd það haust. Skömmu síðar ákváðu forsvarsmenn tískuvikunnar í Mílanó að banna fyrirsætur sem væru með líkamsmassastuðulinn BMI (e. Body mass index) undir 18 en þeir sem eru undir 18 eru of léttir samkvæmt skilgreiningu heilbrigðisstarfmanna.

Það er ekki nóg með að Ramos hafi látist úr anorexíu því hálfu ári síðar lést systir hennar, Eliana, átján ára að aldri. Líkamsbygging Eliönu var svipuð og systur hennar en dómari úrskurðaði að banamein hennar hefði verið hjartaáfall.

Einn þeirra tískuhönnuða sem hafa alltaf farið sínar eigin leiðir er Frakkinn Jean Paul Gaultier. Þegar umræðan um að banna ofurmjóum fyrirsætum að taka þátt í tískuvikum víða um heim árið 2006 stóð sem hæst var tekin ákvörðun um að setja engin slík skilyrði fyrir þátttöku í tískuvikunni í París það haust.

En það stóðu ýmsir á öndinni þegar aðalfyrirsæta Gaultier kom fram á sviðið, hin 132 kg þunga fyrirsæta og leikkona Velvet d'Amour. Aftur á móti hefur verið bent á það síðar að þetta hafi kannski ekki verið neitt annað en hræsni að skella einni fyrirsætu í yfirvigt á svið innan um horrenglurnar, líkt og kom fram í grein Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur Horrengluhugmyndir hátískuhúsanna sem birtist í Morgunblaðinu í janúar 2011.

40% þjáðust af átröskunarsjúkdómum

Ítölsk rannsókn var gerð á holdafari meðal fyrirsætna árið 2007 og er niðurstaða hennar sú að 40% af þeim fyrirsætum sem voru starfandi þá þjáðust af átröskunarsjúkdómum. Í kjölfarið var lagt bann við því að fyrirsætur væru yngri en sextán ára á tískupöllunum og að þær væru í eðlilegri stærð.

Undir þetta hafa ýmsir tískuhönnuðir tekið, þar á meðal Giorgio Armani sem hefur lagt sitt af mörkum í baráttunni gegn anorexíu og segir nauðsynlegt að berjast gegn þátttöku grindhoraðra fyrirsæta.

Ekki Super Size Me heldur Super Slim Me

Dawn O'Porter sem starfar hjá breska ríkisútvarpinu ákvað á sínum tíma að gera heimildamynd í anda Super Size Me þar sem kvikmyndagerðarmaðurinn lifir á McDonalds í heilan mánuð.

Porter nefndi sína mynd Super Slim Me. Þar er fylgst með henni fara úr bresku fatastærðinni 12 sem svarar til 40 í evrópskum númerum í bandarísku stærðina 0 (sem svarar til stærðar 4 í Bretlandi og 32 í evrópskum númerum). Henni tókst ætlunarverkið en hefur aldrei verið jafnóhamingjusöm og  þegar kílóin hrundu af henni. Fyrst hafi tilfinningin verið dásamleg og talar hún í viðtali við Daily Mail um þegar hún klæddi sig í fyrsta skipti í gallabuxur í stærð 8. Sælutilfinningin var yfirþyrmandi. En vanlíðanin var enn meira yfirþyrmandi þegar hún nálgaðist ætlunarverkið - stærð 0.

 Þunglyndi, svefnleysi og skapsveiflur 

Í tvo mánuði lifði hún á 500 kaloríum á dag, sem er fjórðungur þess sem meðalkona þarf til þess að halda þyngd sinni óbreyttri. Í stað þess að borða gufusoðinn fisk með grænmeti í hádeginu át hún einn stöngul af brokkólí. Ekki eitt glas af áfengi fór inn fyrir hennar varir og hún æfði á hverjum degi í bootcamp-stöð. Skipti engu máli þar hvort það var jóladagur eða nýársdagur, Porter var mætt í ræktina klukkan fimm að morgni.

Átta vikum eftir að tilraunin hófst var hún svo máttfarin að hún gat varla klætt sig á morgnana. Svo ekki sé talað um þunglyndið, svefnleysið, höfuðverkinn og skapsveiflur, stærð 0 var orðin að veruleika. 50% af líkamsfitu hennar voru horfin. „Í fyrsta skipti á ævinni var ég grönn,“ segir Porter.

Hún segir að eftir að hafa starfað í sjónvarpi í talsverðan tíma og kynnst fjölmörgum í tískuiðnaðinum skilji hún vel hversu erfitt þetta hlýtur að vera fyrir unglingsstúlkur sem eru jafnvel að glíma við brenglaða sjálfsmynd. Baráttan hafi verið nógu erfið fyrir hana, 28 ára gamla konu fulla sjálfstrausts. 

Hún hafi kannski aldrei verið grönn en aldrei feit. Aldrei nokkurn tíma hafi kærastar hennar í gegnum tíðina minnst á það að þeim þætti hún fullþybbin en samt hafi það ítrekað hvarflað að henni að það væri nú ágætt að losna við nokkur kíló þó svo að líkamsstuðull hennar hafi verið 22 eða eins og best verður á kosið.

Átta bláber og skeið af jógúrt í morgunmat

Kílóin hrundu af henni í byrjun enda ekki skrýtið þar sem hún svelti sig nánast, eða hvað er hægt að segja annað þegar morgunverðurinn samanstendur af átta bláberjum og einni skeið af jógúrt. Tvær hrískökur í hádeginu með grænmetissúpu sem eiginlega var ekkert annað en vatn og það sama um kvöldið. Hún léttist um 3 kg fyrstu vikuna og engdist af hungri á sama tíma.

Kjaftæði að þær séu svona grannar að eðlisfari

Niðurstaða hennar eftir gerð heimildarmyndarinnar er sú að það sé ekkert annað en bull þegar Hollywoodleikkonur tala fjálglega um hversu grannar þær séu að eðlisfari og þær þurfi bara ekkert að hafa fyrir því að halda sér grönnum. Enginn sé svona horaður að eðlisfari. Heldur eru þessar konur á barmi þess að halda sér á lífi. Þær borði jafnvel ketamín, lyf sem hrossum er gefið og geti dregið þær til dauða, til þess að halda matarlystinni í skefjum.

Eða eins og Porter bendir á – þessar konur eru kannski að drepa sig sjálfar en um leið eru þær að senda ungum stúlkum skilaboð – skilaboð sem geta dregið þessar ungu stúlkur til dauða. Skilaboð um hvernig sé eðlilegt að líta út.

Framleiða ekki einu sinni fatnað í stærri númerum

Hún gagnrýnir fatahönnuði harkalega, sömu fatahönnuði og tala um að þeir noti ekki horaðar fyrirsætur til þess að sýna hönnun sína. Á sama tíma er stærsta stærðin hjá Prada og Gucci stærð 6 í bandarískum númerum (stærð 10 í breskum stærðum).

„Eru tískuhönnuðir að segja okkur að ef við erum í stærri stærðum en 10 (38 í evrópskum númerum) verðskuldum við ekki að klæðast fatnaði þeirra?“ spyr Porter.

Þrátt fyrir vanlíðan á megrunartímabilinu viðurkennir hún að allt hafi snúist um mat og það hvernig hún leit út. Maginn hvarf og þrátt fyrir að hafa alltaf verið hungruð þráði hún að losna við aðeins fleiri kíló.

Allt snerist um mat

Næringarfræðingur sem fylgdist með Porter benti henni á að einn daginn hefði hún innbyrt innan við 250 kaloríur og í heila viku fór hún aldrei yfir 400 kaloríur á dag. Hún var komin á hættulega braut.

„Matur var það eina sem ég gat hugsað um. Á nóttunni lá ég andvaka af hungri og lét mig dreyma um fyrstu máltíðina sem ég myndi fá mér þegar megruninni lyki. (Allan tímann sem tilraunin stóð hvarf hungrið aldri – það er enn ein mýtan.)“

Á sjöundu viku byrjaði þunglyndið að banka á dyr. Í fyrsta skipti á lífsleiðinni hjá Porter, sem segist hafa grátið yfir engu. En það eina sem hélt henni gangandi var hugsunin um hversu skelfilegt þetta væri. „Ég hugsaði um ungar stúlkur sem gera sjálfum sér þetta og að einhver yrði að stöðva þær,“ segir Porter.

Endalausar athugasemdir um útlit hennar voru líka að gera Porter brjálaða. Nokkuð sem hún hafði aldrei áður þurft að upplifa. Hingað til hafði enginn sýnt því áhuga hvort hún væri kílói léttari eða þyngri.

Í lífshættu eftir átta vikna svelti

Læknisskoðun leiddi í ljós að hvítu blóðkornin voru orðin óeðlilega fá þannig að mikil hætta væri á sýkingum og hún þjáðist af steinefnaskorti. Læknirinn benti henni á að ef hún héldi tilrauninni áfram myndi hún hætta á blæðingum, hárið yrði lífvana og húðin líflaus. En það sem meira væri um vert – ónæmiskerfið væri í mikilli hættu og hún væri auðvelt fórnarlamb berkla og jafnvel krabbameins.

„Mér hefur aldrei liðið jafn óaðlaðandi á ævinni. Þegar ég spurði karlkynsvin minn hvenig ég liti út sagði hann að ég væri ekki jafnkynþokkafull og venjulega enda væri ég ekki eins sjálfsörugg og venjulega.“

Konur hrósuðu en ekki karlar, sem töldu hana óaðlaðandi

Ástalífið hefur heldur aldrei verið jafnömurlegt enda ekki gaman að fara út að borða með manneskju sem nartar í matinn sinn eða hreyfir hann til á diskinum.

„En þrátt fyrir að karlmönnum fyndist ég ekki kynþokkafull voru konur alltaf að segja mér að ég liti rosalega vel út.“ Hún bendir á að það sé eiginlega ótrúlegt hvað þyngd virðist vera mikið áhugamál fólks. Fólk sé dæmt út frá útliti sínu.

„Staðreyndin er sú að þetta var ömurlegasti tími ævi minnar og mér leið hræðilega. Karlmönnum fannst ég óaðlaðandi og konur voru öfundsjúkar út í mig. Það sem ég hafði upp úr þessu var vitneskjan um að horað fólk er ekki endilega hamingjusamara og það var dásamlegt að öðlast gleði mína á ný.

Fræga horaða fólkið - til að mynda Victoria Beckham - þarf að svara fyrir ýmislegt. Það gegnir hlutverki sem fyrirmyndir ungra stúlkna sem setja heilsu sína og líf í hættu til þess að verða eins og fyrirmyndir sínar. Þetta er ekki eðlilegt, segir Dawn O'Porter.

Allt fyrir útlitið

Fáir þekkja tískuheiminn jafn vel og ritstjórar tískutímarita. Kristie Clements var meira en áratug ritstjóri Vogue í Ástralíu en hún var fyrirvaralaust rekin úr starfi í maí 2012. Í kjölfarið skrifaði hún bókina The Vogue Factor þar sem hún sýnir lesandanum inn í óhugnanlegan heim þar sem ungar fyrirsætur borða bréfþurrkur í stað þess að borða og ef það dugar ekki til þá er lagst undir hnífinn – allt til þess að líta „betur“ út á sýningarpöllunum eða á mynd.

Hún segir að gríðarlega margt hafi breyst í fyrirsætuheiminum frá því hún fór að vinna með fyrirsætum. Þá hafi þetta verið stelpur sem voru grannar að eðlisfari og geisluðu af heilbrigði. Þær hafi borðað - kannski ekki mikið  - en borðað samt.

Ekki eðlilegt að vera í stærð 34 ef þú ert hávaxin

„Þær voru ekki skinn og bein. Ég trúi því ekki að einhver haldi að fyrirsæta geti borðað hvað sem hún vill, sleppt því að æfa og samt verið í stærð 8 (sem svarar til 6 í breskum stærðum og 34 í evrópskum) nema þá að vera mjög ungar,“ segir Clements.

Að hennar sögn nota fyrirsætur ýmsar aðferðir til þess að vera svo grannar. Til að mynda vann hún með bandarískri fyrirsætu sem var með ör og öll í sárum á hnjánum. Þegar Clements spurði hana út í þetta fékk hún svarið að þar sem fyrirsætan var alltaf hungruð þá liði oft yfir hana. „Hún hélt  að það væri eðlilegt að falla í yfirlið daglega, og stundum oftar.“

Með næringu í æð reglulega

Í annað skipti var hún að ræða við ástralska fyrirsætu sem var nýflutt til Parísar. Sú leigði litla íbúð með annarri fyrirsætu. Aðspurð hvernig sambúðin gengi svaraði hún því til að hún væri mjög oft ein í íbúðinni þar sem samleigjandi hennar væri mátunar-fyrirsæta. Það þýddi að hún væri oft á sjúkrahúsi með næringu í æð. Mátunar-fyrirsætur eru þær sem starfa með helstu hönnuðum heims og er fatnaðurinn hannaður utan um líkama þeirra.

„Það að líkaminn sem notaður er sem fyrirmynd við upphaf hönnunarlínu er kvenlíkami sem er á barmi sjúkrahúsvistunar vegna vannæringar er skelfilegt,“ segir Clements í viðtali við Guardian.

Með dún í andliti og höndum 

Clements segir að það verði sífellt meira áberandi hversu vannærðar margar fyrirsætur eru og glími við átröskunarsjúkdóma. Meðal einkenna er dúnn á höndum og andliti og eins að þær eru alltaf að berjast við að halda á sér hita. „Ég hef aldrei á mínum ferli heyrt fyrirsætu segja „mér er heitt“, ekki einu sinni þegar þú hefur vafið hana inn í loðfeld og komið henni fyrir í miðri eyðimörk.“

 Umfjöllun Guardian um bók Clements

Meira um bókina

„Nei, nei, það er mitt starf að borða ekki"

Hún minnist einnar rússneskrar fyrirsætu sem hún vann með við myndatökur. Sú var orðin afar máttfarin þegar leið á tökurnar og því bauð Clements henni að fá sér eitthvað að borða. „Nei, nei, það er mitt starf að borða ekki,“ svaraði stúlkan en þetta var eina setningin sem hún kunni í ensku.

Fyrrverandi ritstjóri Vogue, Kristie Clements,  tekur undir með þeim sem hafa áhyggjur af þeim skilaboðum sem ungar stúlkur fá þegar margar fyrirsætur eru svo vannærðar að það er spurning um hvort þær séu frá Darfúr-héraði í Súdan en hún segir að ekki sé hægt að beina sökinni bara að ritstjórum tískutímarita.

Hannað á beinagrindur

Vandinn sé líka val hönnuða á fyrirsætum. Þegar þeir hanna fatnað sinn á lifandi beinagrindur.  Fatalínan er síðan kynnt á tískupöllunum af barnungum, hávöxnum og grindhoruðum fyrirsætum sem jafnvel eiga erfitt með að halda jafnvægi á háu hælunum sem þær skrölta á um pallana undir kastljósi frægðarinnar. Enda segir hún að það séu sumir karlkynshönnuðir sem hana langi hreinlega að kyrkja.

En auðvitað bera ritstjórarnir ábyrgð, þeir taki undir hversu fallega fötin falli að strákslegum líkömum fyrirsæta í stærð 0 (stærð 4 í áströlskum stærðum). „Það er ekki hægt að neita því að föt falla betur að grönnum líkama. En það er munur á því að vera grannur eða hættulega horaður,“ segir Clements.

„Og það er enginn sem segir henni að hætta“

Að sögn fyrrverandi ritstjóra Vogue stóð ritstjórnin einnig frammi fyrir þeim vanda að þegar þau vildu birta myndir af fyrirsætum í stærð 10 í bandarískum stærðum (12 í breskum og 40 í evrópskum) voru ekki í boði föt á fyrirsætur í þeirri stærð hjá fatahönnuðum.

Hún segir að fyrirsætur verði fyrir því að þegar þær bæta á sig fáeinum kílóum þá komist þær kannski ekki í sýnishornin. Það þýðir að þær fá ekki starfið og um leið skömm í hattinn frá umboðskrifstofunni. Fyrirsætan fer því megrun og fær hrós fyrir hversu vel hún lítur út. En í stað þess að halda sér í þeirri þyngd er svo freistandi að léttast aðeins meira því þá verði aðdráttarafl þeirra enn meira. „Og það er enginn sem segir henni að hætta.“

Að sögn Clements hafa margir áhyggjur af þessari þróun. Eitt sinn er hún borðaði með yfirmanni umboðsskrifstofu í New York trúði hann henni fyrir því að á þeim tíma hefðu fjórar af fyrirsætum hans verið lagðar inn á sjúkrahús vegna vannæringar og einhverjar höfðu verið staðnar að því að borða pappírsþurrkur til þess að fylla magann.

Bómullarhnoðrar vættir í appelsínusafa

Fyrirsætan Bria Murphy lýstir því í samtali við Huffington Post í fyrra hversu harður heimur þetta er sem hún starfar í.

„Ég hef heyrt um fólk sem borðar bómullarhnoðra sem dýft er í appelsínusafa ... þau dýfa þeim í appelsínusafa og síðan borða þau bómullarhnoðrana svo þeim líði eins og þau séu södd.“

Ekki jóga og goji-ber

Til að friða samviskuna reyna ljósmyndarar og aðrir í tískubransanum að ímynda sér að stúlkurnar séu svo grannar vegna þess að þær séu svo duglegar að stunda jóga og borða goji-ber.

Vogue er með þá stefnu að birta ekki myndir af fyrirsætum sem eru yngri en sextán ára og ekki þeim sem glíma við átröskun. Öll slík markmið eru af hinu góða en það getur verið erfiðara að framfylgja þeim, það er því síðara, því þá þarf að fylgjast með þeim allan sólarhringinn.

Líffærin voru hætt að starfa og samt hélt hún áfram

Breska fyrirsætan Georgina Wilkin var orðin svo grönn að líffæri hennar voru að gefa sig. Þrátt fyrir það biðu tískuhönnuðir í röðum eftir að bóka hana í vinnu. Wilkin sagði sögu sína í breskum fjölmiðlum síðasta haust en þá hafði hún glímt við anorexíu í á áttunda ár. Hún er 23 ára gömul.

Hún lýsir því hvernig hún hafi komið á umboðsskrifstofuna í London einn daginn svo máttfarin að það leið næstum yfir hana í neðanjarðarlestinni enda hafði hún ekki látið mat inn fyrir sínar varir í marga daga. Þegar hún kom inn til umboðsmanns síns var henni fagnað ákaflega: „Georgina - hvað sem þú ert að gera - haltu því áfram,“ sagði hann við hina sextán ára gömlu fyrirsætu sem tók hann á orðinu.

Næstu sjö árin tók við barátta við anorexíu og um tíma var hún svo hættulega vannærð að bæði hjarta og nýru fóru að gefa sig. En henni var bjargað og hefur hún sett sér það markmið að upplýsa heiminn um þann vítahring sem blasir við fyrirsætum.

Hún segir einu leiðina til þess að koma í veg fyrir þessa þróun, að fyrirsætur haldi áfram að svelta sig, að setja mörk um í hvaða fatastærð þær séu. Hún telur ekki eðlilegt að fyrirsætur séu í minni númerum en átta í breskum stærðum (stærð 38 í evrópskum og 4 í bandarískum).

Var 179 cm og 54 kg og þótti of feit

Þegar hún var uppgötvuð fimmtán ára gömul var hún fljótlega ráðin í vinnu hjá japanskri umboðsskrifstofu. Með því skilyrði þó að hún myndi losna við nokkra sentimetra á mjöðmum og maga. Það varð hennar helsta markmið – að losa við nokkur kíló. Hún sleppti því að borða einhverja daga, sleppti morgunmat og hádegismat og reyndi allt til þess að setja sem minnst inn fyrir sínar varir.  

Þegar Wilkin hóf fyrirsætuferilinn var hún 179 cm að hæð og 54 kg. En það var of mikið fyrir fyrirsætubransann, í hvert skipti sem hún mætti í myndatökur var henni sagt að hún yrði að grennast meira. Allar grennstu fyrirsæturnar fengu stærstu verkefnin og henni var jafnvel sagt að hún ætti ekki möguleika á verkefni fyrir skartgripaframleiðendur þar sem hún væri með svo feita fingur.

Notaði hyljara til að fela hversu bláar varir hennar voru og fingur

„Varir mínar og fingur voru blá þar sem ég var svo grönn að hjartað var að berjast við að dæla blóði um líkamann. Förðunarfræðingurinn þurfti að nota hyljara til þess að halda þessu leyndu,“ segir hún í viðtali við Daily Mail.

Þegar hún kom til Japans í júní 2006 fékk hún áfall því hún var ein sú „stærsta“ í möppunni hjá umboðsskrifstofunni. Sextán ára að aldri fór hún að leigja íbúð í Tókýó með tveimur rússneskum fyrirsætum sem ekki töluðu ensku og einangrun hennar var nánast alger. Þegar hún kom aftur til Bretlands nokkrum vikum síðar fékk fjölskylda hennar áfall að sjá hversu grönn hún var orðin. En fyrirtæki eins og Top Shop, Gap og hönnuðurinn Giles Deacon settu þetta ekki fyrir sig og af nægu var að taka fyrir Wilkin þegar kom að myndatökum.

„Enginn borðaði við tökurnar, sem oft stóðu allan daginn, og það eina sem hélt okkur gangandi var adrenalínið og koffíndrykkir. Í eitt skiptið komst ég ekki í fötin og mér fannst ég vera niðurlægð,“ segir Wilkin.

Sumarið 2007 kröfðust foreldrar hennar þess að hún kæmi með þeim til læknis sem lagði hana strax inn á sjúkrahús þar sem hún var greind með anorexíu. Hún var á sjúkrahúsi næstu fimm mánuði. Þegar hún kom út af sjúkrahúsinu tók gamla lífið við á ný, myndatökur og svelti.

Þegar hún var átján ára fékk hún vinnu hjá Prada við tískuvikuna í Mílanó. En einungis tveimur dögum áður en verkefnið átti að hefjast var henni sagt að ekki væri þörf á henni. Engin skýring fylgdi með og túlkaði Georgina höfnunina þannig að hún væri of feit. Því fór hún að borða enn minna og langar gönguferðir voru notaðar til þess að brenna þeim örfáu kaloríum sem fóru inn fyrir hennar varir.

Þrátt fyrir að líta út eins og gangandi beinagrind streymdu verkefnin inn. En það var um mitt ár 2009 að hún ákvað draga sig í hlé frá fyrirsætuheiminum og leita sér hjálpar með stuðningi móður sinnar.

Í viðtali við Telegraph í september í fyrra segir hún að fyrirsætuferillinn hafi enst í þrjú ár sem skilaði henni átta ára baráttu við anorexíu, glímu sem hún berst enn við. „Það var frábært að vinna við sýningar og ég elskaði fötin og og vinnuna sjálfa. En þrátt fyrir nokkurra ára frama sem fyrirsæta þá er það ekki þess virði,“ segir Georgina Wilkin.

Breski ljósmyndarinn Nigel Barker segir ólíklegt að krafan um að fyrirsætur séu ofurgrannar eigi eftir breytast. Tískuhönnuðir geri sýningareintökin yfirleitt í einni stærð og sú stærð sé sú minnsta enda efniskostnaðurinn minnstur þannig. Það væri stórkostlegt að sjá fyrirsætur af öllum stærðum og gerðum á sýningarpöllunum en það er einfaldlega ekki raunveruleikinn.

Hann segir það hins vegar grátbroslegt að sjá fatnað á fyrirsætu sem minnir ekki neitt á þann sem verið er að reyna að selja flíkina.

Eru grannar en hraustar

Bandaríski tískuhönnuðurinn Isaac Mizrahi, er hins vegar á því að það séu hverfandi tilvik þar sem fyrirsætur eigi við átröskun að stríða. Í viðtali við Huffington Post segist hann ekki lengur verða var við stúlkur sem séu veiklulegar. Þrátt fyrir að vera háar og grannar séu þær hraustlegar. Ekki feitari en hraustlegri, segir Misrahi.

Hann segir að heróínútlitstímabilið hafi verið skelfilegt, það sjái allir í dag þó svo þeir hafi ekki gert það á þeim tíma. Í dag séu fyrirsæturnar hvattar til þess að vera grannar en þær séu ekki hvattar til að líta út eins og eiturlyfjafíklar.

Mizrahi viðurkennir að hann hafi sjálfur glímt við átröskun á unglingsárunum og hann sem hönnuður vilji hafa fyrirsætur grannar. En hann, líkt og margir þeirra sem upplifðu heróínútlitið, velji fyrirsætur sem eru hraustlegar og bæti einhverju við tilveruna. Hann nefnir þær Lindu Evangelista, Cindy Crawford, Naomi Campbell og Christy Turlington sem manneskjur sem hann vinni oft með en þetta séu reyndar og heilbrigðar fyrirsætur sem eigi að vera fyrirmyndir annarra.

En tölurnar tala sínu máli því miður þar sem samkvæmt upplýsingum frá National Association of Anorexia Nervosa and Associated Disorders hafa um 70% stúlkna á aldrinum tíu til sautján ára sínar hugmyndir af hinum fullkomna líkama úr tískutímaritum. Í frétt mbl.is frá því í janúar kom fram að um fjögurra mánaða bið er nú eftir meðferð við átröskun á Landspítalanum, en á síðasta ári var biðtíminn um fjórar vikur.

Hver sá sem hyggst losna við nokkur kíló fyrir sumarið ætti að hafa þessi skrif á vef Landspítalans í huga og muna að þetta getur komið fyrir þig:

„Átraskanir einkennast af alvarlegum truflunum á matarvenjum. Þær þróast oftast í kjölfar megrunarkúra þar sem fólk ætlar í fyrstu að losa sig við nokkur kíló eða fer hreinlega í öfgakennda megrun með því að svelta sig eða losa sig við mat á annan hátt. Slíkir kúrar geta endað í vítahring þar sem einstaklingnum finnst hann aldrei nógu léttur og missir sjónar á hvað er eðlileg líkamsþyngd og eðlileg máltíð. Mataræðið einkennist oft af litlu, einhæfu og fitusnauðu fæði. Einnig getur verið um að ræða alvarlegt ofát, jafnvel í köstum þar sem einstaklingurinn missir stjórn á því magni sem hann borðar en losar sig síðan við fæðuna á eftir, t.d. með því að framkalla uppköst. Ofhreyfing eða óhófleg líkamsrækt er algeng átröskunarhegðun.

Átröskunum fylgir andleg vanlíðan, kvíði og þunglyndi og mikil óánægja með líkamlegt útlit. Manneskjan verður heltekin af hugsunum um mat og þyngd og hræðslu við að borða. Átraskanir eru sjúkdómur en ekki hegðunarvandamál og sá sem veikist þarf að fá meðferð. Orsakir eru margvíslegar, bæði líffræðilegar og sálfélagslegar og meðferð getur verið margþætt. Ef gripið er nógu snemma inn í sjúkdómsganginn með ráðgjöf og stuðningi má oft hindra að sjúkdómurinn þróist á alvarlegt stig.

Þekktustu átraskanirnar eru lystarstol (anorexia nervosa) og lotugræðgi (bulimia nervosa). Lotuofát (binge eating disorder) hefur nýlega verið skilgreint sem sjúkdómur og veldur oft offitu. Sumar átraskanir eru „blandaðar“ með einkennum bæði frá lystarstoli og lotugræðgi og eru kallaðar óskilgreindar átraskanir.“

AFP
Kate Moss í rauðum kjól úr vetrarlínu Mango 2012.
Kate Moss í rauðum kjól úr vetrarlínu Mango 2012. Ljósmynd/Mango
Calvin Klein
Calvin Klein mbl.is/Golli
Fyrirsætur að störfum í New York
Fyrirsætur að störfum í New York AFP
Tískuvikan í New York
Tískuvikan í New York AFP
AFp
AFP
AFP
Hvað ætli þessar fyrirsætur séu gamlar?
Hvað ætli þessar fyrirsætur séu gamlar? AFP
Sennilega er einhver þessara kvenna að glíma við átröskun
Sennilega er einhver þessara kvenna að glíma við átröskun AFP
AFP
Brasilíska fyrirsætan Ana Carolina Reston svelti sig til bana
Brasilíska fyrirsætan Ana Carolina Reston svelti sig til bana AFP
AFP
Brasilískar fyrirsætur undirbúa sig fyrir sýningu.
Brasilískar fyrirsætur undirbúa sig fyrir sýningu. AFP
Undirfatafyrirsætur hjá Victoria Secret
Undirfatafyrirsætur hjá Victoria Secret AFP
Takið eftir fótleggjunum - geisla af heilbrigði ekki satt?
Takið eftir fótleggjunum - geisla af heilbrigði ekki satt? AFP
Fjölmargar fyrirsætur eru í stærð 0 - stærð sem ekki …
Fjölmargar fyrirsætur eru í stærð 0 - stærð sem ekki var einu sinni til fyrir einhverjum áratugum síðan AFP
AFP
Fyrirsæturnar Cindy Crawford, Christy Turlington, Linda Evangelista, Stephanie Seymour, Kate …
Fyrirsæturnar Cindy Crawford, Christy Turlington, Linda Evangelista, Stephanie Seymour, Kate Moss, Claudia Schiffer. Ljósmynd/Edita Vilkeviciute
Victoria Beckham þarf að muna að hún er fyrirmynd fjölda …
Victoria Beckham þarf að muna að hún er fyrirmynd fjölda ungra stúlkna AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert