Mannskæður skjálfti í Síle

Að minnsta kosti fimm eru látnir eftir að jarðskjálfti upp á 8,2 stig reið yfir norðurhluta Síle. Flóðbylgjuviðvörun var gefin út eftir skjálftann sem reið yfir klukkan 20:46 að staðartíma, 23:46 að íslenskum tíma.

Upptök skjálftans voru í 86 km fjarlægð norðvestur af námasvæðinu Iquique.

Flóðbylgjur, allt að 2,1 metri, gengu á land í hluta Síle og rafmagn hefur farið af, eldar kviknað og skriður fallið.

Tugir þúsunda hafa þurft að yfirgefa heimili sín og lýsti forseti landsins, Michelle Bachelet, yfir neyðarástandi á þeim svæðum sem urðu illa úti í skjálftanum samkvæmt frétt BBC.

Samkvæmt frétt AFP greip um sig mikil skelfing meðal íbúa sem þustu út á götur eftir að skjálftinn reið yfir. Fyrirskipuðu stjórnvöld fólki að flýja af láglendi.

„Götuljósin slokknuðu og fólk hljóp skelfingu lostið eftir jarðskjálftann og nokkra eftirskjálfta,“ segir Veronica Castillo, íbúi í Arica, sem er í þúsund mílna fjarlægð frá höfuðborg Síle, Santiago. herinn verður sendur á hamfarasvæðið til þess að koma í veg fyrir rán og óeirðir.

Í borginni Iquique, skammt frá upptökum skjálftans, sluppu um 300 fangar út úr klefum sínum vegna óreiðu sem myndaðist í fangelsinu við skjálftann.

Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðherra Síle, Rodrigo Penailillo, eru fimm látnir hið minnsta og þrír í lífshættu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert