Neyðarástand í þremur héruðum

Forseti Síle, Michelle Bachelet, hefur lýst yfir neyðarástandi í þremur héruðum landins eftir að jarðskjálfti sem mældist 8,2 stig reið yfir norðurhluta landsins. 

Að minnsta kosti fimm létust og tugir þúsunda íbúa í norðurhluta landsins hafa þurft að yfirgefa heimili sín eftir skjálftann sem reið yfir klukkan 20:46 að staðartíma, 23:46 að íslenskum tíma í gær. Upptök hans voru í um 86 km fjarlægð norðvestur af námasvæðinu í Iquique. 

Flóðbylgjuviðvörun var gefin út í kjölfar skjálftans og voru öldurnar rúmir tveir metrar sem náðu að landi í norðurhlutanum. Talið er að flóðbylgjunnar muni gæta lítilsháttar alla leið til Indónesíu.

Neyðarástandi var lýst yfir í Arica, Parinacota og Tarapaca og verður herinn sendur þangað til þess að koma í veg fyrir ringlulreið og þjófnaði.

Bachelet segir að landsmenn hafi tekið neyðarástandinu vel og biður íbúa héraðanna þriggja að halda ró sinni og fylgja fyrirmælum stjórnvalda. Hún mun heimsækja hamfarasvæðið síðar.

Samkvæmt BBC hafa sjónvarpsstöðvar í Síle sýnt myndir frá umferðarhnútum þar sem fólk reynir að komast á brott frá þeim stöðum sem urðu verst úti.

Mannskæður skjálfti í Síle

AFP
Síle
Síle Af vef Vacationtogoto
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert