Norska kirkjan hafnar samkynhneigðum

Norska kirkjan mun ekki leggja blessun sína yfir hjónabönd samkynhneigðra.
Norska kirkjan mun ekki leggja blessun sína yfir hjónabönd samkynhneigðra. AFP

Tillaga um að heimila hjónavígslur hinsegin fólks var hafnað á kirkjuþingi norsku kirkjunnar í dag, þrátt fyrir að flestir biskupar landsins hafi opinberlega stutt tillöguna.

8 af 12 biskupum Noregs sögðust í október vera hlynntir því að hinsegin pör gætu leitað til kirkjunnar þegar þau ganga í hjónaband. Tillögunni var engu að síður hafnað af æðsta stjórnvaldi kirkjunnar, árlegu kirkjuþingi, í dag.

64 þátttakendur þingsins greiddu atkvæði gegn tillögunni en 51 með henni. Að sögn NRK vísuðu bæði meðmælendur og andmælendur tillögunnar í Biblíuna, máli sínu til stuðnings.

Bård Nylund, formaður Samtaka hinsegin fólks í Noregi (LLH), lýsir vonbrigðum sínum í viðtali við NRK. „Nú hafa þau sagt það hátt og skýrt að þau vilja ekki vera kirkja allrar þjóðarinnar. Þetta er sorglegt fyrir kirkjuna og alla meðlimi hennar sem líður núna eins og þeir séu ekki velkomnir innan hennar.“

Forseti guðfræðideildar Óslóarháskóla, Trygve Wyller, segir í samtali við NRK að það hafi komið honum á óvart að þrátt fyrir allt hafi 51 greitt atkvæði með tillögunni. Það sé þó augljóslega ekki nóg fyrir hinsegin fólk.

„Hvað sjálfan mig varðar, og út frá guðfræðilegu sjónarmiði, þá er það heldur ekki ásættanlegt. En það er jákvætt að svo margir vilji breytingar, það er skref í rétta átt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert