Hafa staðsett lendingarblettinn

Leitarþota í aðflugi til Perth eftir leit á þeim slóðum …
Leitarþota í aðflugi til Perth eftir leit á þeim slóðum þar sem talið er að malasíska þotan hafi brotlent á hafinu. mbl.is/afp

Einn af helstu sérfræðingum heims í að leita uppi skips- og flugvélaflök telur að búið sé að finna staðsetningu flaks malasísku farþegaþotunnar sem saknað hefur verið frá 8. mars. Hann segir björgun flugrita þotunnar blasa við.

David Mearns, forstjóri björgunarfélagsins Blue Water Recoveries, sagði við sjónvarpsstöðina ABC, að hann væri sannfærður um að hljóðmerki sem numin hefðu verið á svæðinu hafi verið frá flugritunum.

„Ég held að í aðalatriðum hafi þeir fundið staðinn sem flakið hvílir á. Þó svo ríkisstjórnin hafi ekki skýrt frá því þá myndi ég óhikað svara játandi spurningu um hvort hún hefði nægar tæknilegar upplýsingar til þess. Merkin fjögur voru mjög greinileg og geta ekki verið frá neinu öðru komin.“

Mearns er Bandaríkjamaður og hlaut ástralska heiðursorðu fyrir að finna flak herskipsins HMAS Sydney árið 2008, eða 66 árum eftir að það hvarf á Indlandshafi í seinna heimsstríðinu. Hann kom einnig við sögu er flak þotu Air France fannst á hyldýpi í Atlantshafi árið 2011.

Mearns telur að stjórnendur leitarinnar fari sér hægt í frásögnum af tillitssemi við ættingja áhafnar og farþega sem fórust með malasísku þotunni, flug MH370. Þeir muni halda sér til hlés þar til dvergkafbáturinn Bláuggi-21 kemur með ljósmyndir af flakinu upp af hafsbotni.

Dvergkafbáturinn var sendur niður á ný í dag. Greining á myndum frá sex stunda leiðangri hans í fyrradag hafa ekki leitt neitt í ljós er viðkemur hvarfi þotunnar. Í leitinni tóku að auki þátt 11 herflugvélar, þrjár borgaralegar flugvélar og 11 skip. Leitarsvæðið er á bletti í 2087 kílómetra fjarlægð norðvestur af Perth.

Það gerir leitarmönnum erfitt fyrir, að hafsbotninn á þessum slóðum sé ókannaður með öllu og engin áreiðanleg kort því til. Leitað er á svonefndri Zenith-sléttu sem er utan efnahagslögsögu allra ríkja sem land eiga að Indlandshafi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert