Hóta að hætta öllum ferðum á fjallið

Snjóflóðið sem varð að minnsta kosti 13 að bana á …
Snjóflóðið sem varð að minnsta kosti 13 að bana á leið niður hlíðar Everest-fjalls. AFP

Leiðangursstjórar og leiðsögumenn hafa í dag hótað að hætta við allar ferðir á Everest-fjall í kjölfar mannskæðasta snjóflóðs í sögu fjallsins. Í dag minnast nepalskir sjerpar fallinna félaga sinna en þrettán létust í snjóflóðinu sem féll skammt frá grunnbúðunum á föstudag. Talið er að fleiri hafi látið lífið.

Tveir Íslendingar, Vilborg Arna Gissurardóttir og Ingólfur Axelsson, voru í grunnbúðunum er flóðin féllu. Þau sakaði ekki.

Sjerpar sem starfa í fjöllunum fjölmenntu til höfuðborgarinnar Katmandú í dag til að minnast þeirra sem fórust í flóðunum. Margir felldu tár en þeir eru ekki aðeins sorgmæddir heldur einnig reiðir. 

Munkar fylgdu sjerpunum um miðborgina í dag og voru kistur sex þeirra sem fórust fluttar um á vörubílum. Sjerparnir hafa sett saman lista af kröfum sem þeir vilja að farið verði að. Flestar snúast þær að öryggi þeirra á fjallinu en einnig launum og vinnuaðstæðum almennt. Þeir segjast ekki ætla að fara með hópa á fjallið, verði ekki gengið að kröfum þeirra innan viku.

Meðal þess sem sjerparnir krefjast er að settur verði á laggirnar sjóður fyrir þá. Í sjóðinn vilja þeir að renni um 30% af gjaldi sem tekið er af fjallgöngumönnum. Þá vilja þeir að líftryggingar sjerpanna verði tvöfaldaðar.

Þá segjast sjerparnir vara við því að þeir verði beittir þrýstingi til að halda áfram vinnu sinni það sem eftir er af göngutímabilinu við Everest. Þeir segjast ekki hika við það að mótmæla ef kröfum þeirra verði ekki mætt.

Kröfugerðin var skrifuð á fundi leiðangursstjóra, leiðsögumanna og fjallgöngumanna í grunnbúðunum í gær. 

Samtök fjallamanna í Nepal, Nepal Moutaineering Association, segja í yfirlýsingu að ríkisstjórnin hafi nú sjö daga til að verða við kröfum sjerpanna. Verði því ekki sinnt munu þeir hætta ferðum á fjallið.

Lík þrettán leiðsögumanna hafa fundist í snjóflóðunum. Þriggja er enn saknað. Níu tókst að bjarga. Snjóflóðin fóru af stað er sjerparnir voru á leið með búnað fjallgöngumanna upp á fjallið. Fjallgöngumennirnir biðu í grunnbúðum á meðan. 

Nokkur lið fjallgöngumanna hafa þegar ákveðið að hætta við göngu á tind Everest-fjalls. Aðrir eru enn að hugsa sig um.

Meðal þeirra sem hafa hætt við að fara á fjallið er lið frá sjónvarpsstöðinni Discovery. Sjerpar sem áttu að fylgja því létust í snjóflóðunum. Til stóð að sjónvarpa í beinni útsendingu flugi manns í svifgalla (e. winged jumpsuit) frá hæsta tindi fjallsins.

Sumir sjerpar segjast nú óöruggir að klífa fjallið. Þeir vilja þó bíða og sjá hvað viðskiptavinir þeirra, fjallgöngumennirnir, ákveða að gera. 

„Eftir svona hræðilegt slys, þá viljum við flestir ekki halda áfram þetta tímabil,“ segir sjerpinn Tashi við AFP-fréttastofuna. Einn sjerpi úr hans hópi lést í snjóflóðinu. Tveggja er enn saknað.

„En það er svo mikil fjárfesting í þessu, við erum ekki í stöðu til að neita,“ segir hann. 

Gríðarleg áhætta

Hamfarirnar á fjallinu hafa varpað ljósi á þá hættu sem sjerpar leggja sig í við vinnu sína. Þeir leggja oft í hann á fjallið fyrir birtingu og bera þungar birgðar fjallgöngumannanna, m.a. mat þeirra og búnað. Fjallgöngumenn borga fleiri þúsund dollara fyrir að fá að klífa fjallið.

Verði göngum á fjallið frestað eða þeim aflýst þetta vorið mun það hafa mjög alvarleg fjárhagsleg  áhrif í Nepal. Á hverju ári fær ríkið í kassann milljónir dollara, eingöngu frá fjallgöngumönnum sem fara á Everest.

Talsmaður ferðamálaráðuneytisins segir að ríkisstjórnin skilji áhyggjur sjerpanna. Nú í vor hefur ríkisstjórnin gefið út gönguleyfi til 734 manna, þeirra á meðal 400 leiðsögumanna, í 32 leiðöngrum. 

Sjerparnir fá um 3-6.000 dollara á hverri vertíð á fjallinu. Tryggingar þeirra eru þó lágar og standa yfirleitt aldrei straum af þeim kostnaði sem hlýst af óhöppum á fjallinu. 

„Við elskum fjöllin, en við myndum klífa áhyggjulausir ef við vissum að það væri séð um fjölskyldur okkar ef eitthvað kæmi fyrir,“ segir sjerpinn Mingma. Hann er fyrsti Nepalinn sem kleif alla 14 tinda heims sem eru hærri en 8.000 metrar.

Frá því að Edmund Hillary og Tenzing Norgay klifu fyrstir tindinn árið 1953 hafa yfir 300 manns, aðallega leiðsögumenn, týnt lífi á fjallinu.

Dóttir Ang Kazi, sjerpa sem fórst á fjallinu á föstudag, …
Dóttir Ang Kazi, sjerpa sem fórst á fjallinu á föstudag, kveikir á olíulampa og minnist föður síns. AFP
Ættingjar þeirra sem létust standa við líkin. Þriggja er enn …
Ættingjar þeirra sem létust standa við líkin. Þriggja er enn saknað. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert