„Og nú er hún dáin“

Yara var aðeins átta ára.
Yara var aðeins átta ára. Skjáskot af Expressen

Móðurbróðir litlu stúlkunnar sem fannst stórslösuð í íbúð í Svíþjóð og var úrskurðuð látin á sjúkrahúsi skömmu síðar, er grunaður um að eiga þátt í dauða hennar. Hann neitar sök.

Stúlkan var átta ára og hét Yara. Hún fannst í íbúð í bænum Karlskrona og var úrskurðuð látin á sjúkrahúsi skömmu síðar. Í kjölfarið var par handtekið, móðurbróðir stúlkunnar og kona hans, en foreldrar hennar búa í Palestínu. 

Móðurbróðirinn er 31 árs og eiginkonan 30. Stúlkan bjó hjá þeim og samkvæmt fréttum sænskra fjölmiðla hafði parið forræði yfir henni. Til stóð að foreldrar stúlkunnar myndu einnig flytja til Svíþjóðar til að dvelja hjá dóttur sinni og hafði beiðni þess efnis verið send sænskum yfirvöldum.

Parið hefur verið úrskurðað í áframhaldandi gæsluvarðhald, grunað um að hafa myrt stúlkuna. 

Faðir stúlkunnar segir í viðtali við sænska blaðið Expressen að mjög hafi dregist að fá svör frá Svíþjóð um hvort fjölskyldusameining væri samþykkt.  „Því verndaði Svíþjóð ekki dóttur mína?“ spyr faðirinn. Hann segir hana hafa farið frá Palestínu til Svíþjóðar til að komast hjá stríði og hörmungum. 

Nágrannar stúlkunnar höfðu fyrir nokkru sagt lögreglu frá því að stúlkan væri illa til fara og virtist eiga erfitt. Nú er rannsakað hvers vegna ekkert var aðhafst.

Faðir Yöru segir að hún hafi brotnað niður eftir að skólinn hennar var sprengdur í Palestínu í nóvember árið 2012. Hún hafi orðið mikið veik. Þar sem margir úr fjölskyldunni bjuggu í Svíþjóð var ákveðið að hún færi þangað. „Því við vildum að hún væri örugg,“ segir faðir hennar við Expressen. 

Hann segir að allir hafi sagt að Svíþjóð væri besta landi í heimi til að ala upp börn. „Við treystum Svíþjóð. Við treystum sænska kerfinu. Og nú er hún dáin.“

Yara kom til Svíþjóðar í febrúar á síðasta ári. Faðir hennar segist hafa haldið að hún væri í góðum höndum. Hann segir að félagsmálayfirvöld hafi gefið grænt ljós á að parið í Karlskrona sæi um Yöru. Þau hafi verið metin hæf til þess.

„Af hverju höfðu þau ekki samband við okkur þegar þau sáu að ástandið var slæmt?“ spyr faðirinn sem segist vilja réttlæti fyrir dóttur sína. „Hún var glöð í Svíþjóð. Hún lærði að synda. Hún fékk að upplifa margt nýtt sem hún gat ekki á Gaza.“

Faðirinn segist ekki hafa fengið nein skilaboð frá félagsþjónustunni eða lögreglunni um lát dóttur hans. Hann hafi heyrt það frá konu sem frétti af því á Facebook. 

„Yara var bara átta ára,“ segir faðir hennar. „Hún var glöð og hamingjusöm en hún þurfti vernd.“

Fréttir mbl.is:

Heyrði af andlátinu á Facebook

Skil­in eft­ir með tvö lít­il börn

Par í haldi vegna stúlku­morðs í Svíþjóð

Frá Karlskrona í Suður-Svíþjóð.
Frá Karlskrona í Suður-Svíþjóð. mbl.is/wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert