Réðust á búðir mótmælenda

Óeirðalögreglumenn standa vaktina við flugstöð hersins sem stjórnandstæðingar mótmæltu í …
Óeirðalögreglumenn standa vaktina við flugstöð hersins sem stjórnandstæðingar mótmæltu í dag. AFP

Þrír eru látnir og yfir 20 særðust í árás sem var gerð á mótmælabúðir stjórnarandstæðinga í Bangkok, höfuðborg Taílands.

Fram kemur á vef BBC, að sjónarvottar hafi heyrt sprengingar og skothvelli við búðirnar í morgun, en þær standa við Lýðræðisminnisvarðann í Bangkok. 

Mótmælendur hafa þrýst á efri deild taílenska þingsins til að víkja núverandi ríkisstjórn frá og setja á bráðabirgðastjórn. Ríkisstjórn landsins og landskjörstjórn áttu að hittast á fundi í dag en mótmælendunum tókst að fá þeim fundi aflýst. 

Ríkisstjórnin vill halda þingkosningar í júlí eftir að mótmælendurnir röskuðu fyrri kosningum víða um land. 

Hópur sem tilheyrir Suthep Thaugsuban, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, braut sér leið inn á svæði sem tilheyrir flugstöð hersins þar sem fundur forsætisráðherrans Niwatthamrong Boonsongphaisan og kjörstjórnarinnar átti að fara fram og urðu þeir að aflýsa fundinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert