Valdaránið ekki réttlætanlegt

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Valdarán taílenska hersins er á engan hátt réttlætanlegt. Þetta sagði John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í dag og varaði við því að valdaránið myndi hafa slæm áhrif á samband Bandaríkjanna og Taílands. Hvatti hann til þess að komið yrði á fót borgaralegri ríkisstjórn, fjölmiðlafrelsi yrði virt og boðað til kosninga þar sem vilji fólksins réði niðurstöðunni. Bresk stjórnvöld lýstu í dag áhyggjum sínum vegna valdaránsins og hvöttu til þess að sátt næðist um stjórn Taílands. Áður hafði Francois Hollande, forseti Frakklands, fordæmt valdaránið.

Herforingjastjórnin hefur varað við því að lokað verði á alla samfélagsmiðla á internetinu í Taílandi sem nýttir væru til þess að hvetja til ofbeldis eða gagnrýna forystumenn hersins. Fram kemur í frétt AFP að samfélagsmiðlar eins og Facebook og Twitter séu gríðarlega vinsælir í landinu. Áður hafði herforingjastjórnin fyrirskipað öllum stjórnvarpsstöðvum og útvarpsstöðum í Taílandi að hætta að senda út hefðbundna dagskrá sína og senda þess í stað einungis út efni frá hernum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert