Merkel vill Breta áfram í ESB

Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, segist vonast til þess að Bretland verði áfram í Evrópusambandinu en forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, er ósáttur við að Jean-Claude Juncker verði næsti forseti framkvæmdastjórnar ESB líkt og allt bendir til. Hefur Cameron hótað því að Bretar yfirgefi ESB-samstarfið.

Merkel sagðist í gær vonast til þess að samkomulag næðist um val á næsta forseta. Samkvæmt Der Spiegel um helgina á Cameron að hafa sagt Merkel að ef Juncker yrði fyrir valinu gæti það þrýst á um að Bretar gengju til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort þeir ættu að vera áfram í ESB.

En Cameron er ekki eini þjóðarleiðtoginn sem er ósáttur við Juncker, sem er fyrrverandi forsætisráðherra Lúxemborgar og mikill stuðningsmaður evrusamstarfsins, því Svíar, Ungverjar, Hollendingar og Finnar vilja frekar sjá einhvern annan taka við starfi forseta framkvæmdastjórnar ESB.

mbl.is