Gætu verið fleiri fjöldagrafir barna

Reuters

Yfirvöld í Írlandi munu rannsaka hvort fjöldagröfin með tæplega 800 börnum nærri heimili fyrir ógiftar mæður sé einsdæmi. Enda Kenny, forsætisráðherra Írlands, tilkynnti þetta í dag.

Það var írskur sagnfræðingur, Catherine Corliss, sem aflaði gagna sem sýndu nafn, aldur og dánarorsök hvers einasta barns sem lést á heimilinu. Það vakti athygli hennar að engin ummerki voru um grafir þeirra en það var vegna þess að lík barnanna voru sett í rotþró á lóð heimilisins þar sem líkamsleifarnar eru enn.

Börnin voru 796 talsins, allt frá nýfæddum börnum að átta ára aldri, og létust þau öll á árunum 1925 til 1961.

Heimilið var fyrir konur sem urðu óléttar utan hjónabands og voru brennimerktar fyrir af þjóðfélaginu þar sem íhaldssöm kaþólsk gildi réðu ríkjum. Margar af konunum höfðu verið reknar af heimilum sínum og höfðu ekki í nein önnur hús að venda.

Kenny hefur fyrirskipað yfirvöldum að skoða málið og sjá hversu umfangsmikið það er, hverjir hafi tengst því og athuga hvort önnur svipuð heimili hafi verið annars staðar í landinu.

Nunnurnar sem ráku heimilið, The Bon Secours-systurnar, sendu frá sér yfirlýsingu í dag þar sem þær sögðust í áfalli og sorgmæddar yfir fréttunum og fögnuðu ákvörðuninni um rannsókn málsins til þess að unnt væri að leiða sannleikann í ljós.

Hópur fólks í Tuam safnar nú fjármunum til að gera minnismerki um börnin þar sem nafn og aldur hvers einasta barns á að koma fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert