Ástarbrúin hrundi vegna lásanna

Það er víst til eitthvað sem heitir of mikil ást en það kom berlega í ljós í dag þegar handrið ástarbrúarinnar frægu, Pont des Arts, í París hrundi vegna álagsins af ástarlásunum þannig að rýma þurfti brúna.

Þúsundir elskenda víðs vegar að fara á brúnna á hverju ári og innsigla ást sína með því að krækja lás með nöfnum sínum á handriðið og kasta lyklinum í Signu til marks um að þeir hafi skilið ást sína eftir í París.

Lögreglan þurfti að hafa hraðar hendur og rýma brúna í kvöld þegar um 2,4 metrar af handriðinu hrundi niður. Bráðabirgðahandrið hefur verið sett upp í staðinn og verður brúin opnuð aftur á morgun.

Brúin liggur yfir Signu á milli Louvre safnsins á vinstri bakkanum og Latínuhverfisins á hægri bakkanum.

Hefðin er orðin að hálfgerðum hausverk fyrir borgaryfirvöld þar sem lásarnir geta valdið skemmdum á þessu sögufræga mannvirki og þannig skaðað arfleið borgarinnar. Tveir bandaríkjamenn hófu undirskriftarsöfnun í mars s.l. þar sem þeir kalla eftir því að lásarnir verði fjarlægðir og vísa bæði í útlitsmengun og hættu á skemmdum. Þúsundir manna hafa nú skrifað undir

Ástfangið par á Ástarbrúnni.
Ástfangið par á Ástarbrúnni. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert