Stærsta áskorun heimsmeistarans

Mynd/AFP

Sumir fæðast einfaldlega til þess að verða sigurvegarar. Ferill ökuþórsins Michaels Schumachers ber þess augljós merki að hann sættir sig ekki við annað en fyrsta sætið. Eftir skíðaslysið örlagaríka þann 29. desember sl. verður Schumacher að takast á við stærsta verkefni sitt til þessa, að ná heilsu. 

Í vikunni var Schumacher útskrifaður af spítalanum í Grenoble eftir að hafa verið vakinn úr meira en sex mánaða dái. Margt hefur verið skrifað og skrafað um ástand hans, en fréttir hafa borist af því að hann hafi getað tjáð sig við eiginkonu sína og kinkað kolli. Sérfræðilæknirinn Erich Riederer tjáði sig við The Independent í gær og sagði að líklegast ætti Schumacher eftir að verða öryrki það sem eftir er ævinnar. „Hann verður ör­yrki allt sitt líf og mun alltaf þurfa að treysta á aðstoð annarra,“ seg­ir Ried­erer. Hann seg­ir enn fremur að Schumacher glími við varan­leg­ar skemmd­ir á heila.

Gary Hartstein er annar læknir sem hefur skoðað Schumacher. Hann varar við því að litlar líkur séu á að hann komi til með að ná fullri heilsu. Segir hann að aðeins einn af hverjum tíu sem hljóta svipuð meiðsl og Schumacher nái fullri hreyfigetu og andlegri heilsu. 

Margumdeildur sigurvegari

Ferill Schumachers í Formúlu 1-keppninni er ævintýri líkastur. Honum skaut upp á stjörnuhimininn árið 1994 þegar hann sigraði í stigakeppni ökuþóra og endurtók leikinn ári síðar. Tók hann við krúnunni af ökuþórnum brasilíska, Ayrton Senna, sem lést í kappakstri árið 1994 eftir að hafa verið einn besti ökumaðurinn í Formúlu eitt í áraraðir. Sigrar Schumachers voru samt ekki óumdeildir. Hann vann stigakeppnina árið 1994 eftir að hafa lent í árekstri við ökumanninn Damon Hill í síðasta kappakstri ársins. Varð áreksturinn til þess að hvorugur þeirra lauk kappakstrinum og þar sem Schumacher leiddi þá stigakeppnina stakk hann af með sigurinn. Hafa margir talið að Schumacher hafi valdið árekstrinum viljandi til þess að sigra. 

Bensínvél á dótabíl

Schumacher ólst upp við að aka kappakstursbifreiðum, ásamt litla bróður sínum, Ralf Schumacher, sem einnig á að baki feril í Formúlu 1. Fyrsta reynsla hans af akstri var þegar faðir hans bætti lítilli bensínvél á lítinn pedalabíl sem Schumacher átti þegar hann var fjögurra ára. Hann varð þýskur meistari í go-kart aðeins 18 ára að aldri, og hélt áfram á sigurbraut í Formúla Ford, Formúla König og Formúlu 3 áður en hann tók skrefið upp í hóp þeirra bestu í Formúlu 1. 

Eftir að hann vann heimsmeistaratitilinn árið 1995 ákvað hann að söðla um og gekk til liðs við ítalska bílaframleiðandann Ferrari. Ferrari var á þessum tíma sofandi risi í Formúlu 1 og hafði ekki unnið titil frá árinu 1979. Schumacher freistaði þess að endurvekja hina ríku sigurhefð liðsins og hófst með því eitt sigursælasta samstarf ökumanns og bílaframleiðanda í nútímakappaksturssögu. Fram til ársins 2004 átti hann eftir að vinna keppnina samanlagt fimm sinnum. Háði hann margar ódauðlegar baráttur við helsta keppinaut sinn, Finnann Mika Hakkinen, sem ók fyrir Mercedes McLaren. 

Regnkonungur í ríki sínu

Þegar hann var upp á sitt besta fékk Schumacher viðurnefnið Regenkönig, eða Regenmeister (í. Regnkonungurinn eða Regnmeistarinn). Var það skírskotun til þess að hann þótti sérstaklega lipur ökumaður á regnvotum brautum. Á ferli sínum sigraði hann í alls 17 af 30 keppnum sem hann keppti í í rigningu. 

Árið 2006 ákvað Schumacher að láta gott heita, og lagði hjálminn á hilluna. Hann hélt áfram að starfa fyrir Ferrari fyrst um sinn sem ráðgjafi. Árið 2010 ákvað hann hins vegar að snúa aftur í Formúlu 1, í þetta skiptið fyrir Mercedes GP, sem áður höfðu verið hans helstu keppinautar. Hann náði aldrei sömu hæðum og hann hafði náð fyrir Ferrari og hans besta frammistaða í þau þrjú ár sem hann ók fyrir Mercedes var þriðja sætið í Valencia-kappakstrinum árið 2012. Ákvað hann að leggja hjálminn á hilluna í annað sinn eftir tímabilið það árið. 

Mikilreyndur skíðamaður

Skíðaáhugi Schumachers hefur lengi verið þekktur. Hann var tíður gestur í skíðasvæðinu Trysil í Noregi í mörg ár þar sem hann átti stóran skíðakofa. Lögreglan í Trysil fór ekki varhluta af því og hefur í tvígang sektað Schumacher fyrir of hraðan akstur á leið sinni í kofann. Hann var svo staddur í Grenoble um síðustu jól í skíðafríi ásamt fjölskyldu sinni þegar slysið átti sér stað. Schumacher var að skíða utan brautar þegar hann féll með þeim afleiðingum að hann missti meðvitund og höfuðkúpubrotnaði.

Schumacher á skíðum
Schumacher á skíðum Mynd/EPA
Mynd/AFP
Mynd/AFP
Michael Schumacher á Ferrari bíl í Formúlu 1 árið 2001.
Michael Schumacher á Ferrari bíl í Formúlu 1 árið 2001. Mynd/Wikipedia
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert