Blaðamenn dæmdir í dag

Peter Greste ogMohamed Baher
Peter Greste ogMohamed Baher AFP

Dómur í máli gegn þremur blaðamönnum Al-Jazeera verður kveðinn upp í Kaíró í dag en þreir eru ákærðir fyrir að hafa aðstoðað Bræðralag múslíma sem er búið að banna í Egyptalandi.

Blaðamennirnir Peter Greste, Mohammed Fahmy og Baher Mohamed eru ákærðir fyrir að hafa birt rangar fréttir og stutt Bræðralag múslíma. Þeir hafa allir neitað sök. Allt frá því samtökin, sem var stýrt af fyrrverandi forseta landsins, Mohamed Morsi voru bönnuð þegar Morsi var steypt í júlí í fyrra þá hafa stjórnvöld í Kaíró harðlega gagnrýnt fréttaflutning  Al-Jazeera, meðal annars hvernig yfirvöld í Egyptalandi hafa ráðist á fylgismenn Bræðralags múslíma og fangelsað þá. 

Þau telja Al-Jazeera vera rödd yfirvalda í Katar og saka stjórnvöld í Doha um að styðja við bakið á Bræðralagi músíma. Á sama tíma hefur emírinn í Katar harðlega gagnrýnt árásir á liðsmenn Bræðralagsins en talið er að 1.400 þeirra hafi látist í árásum af hálfu hins opinbera. 

Þremenningarnir vinna fyrir Al-Jazeera English og eru þeir ákærðir ásamt 17 öðrum um að birta falskar fréttir. Þeir hafa verið í haldi í hálft ár. Samkvæmt upplýsingum frá Al-Jazeera eru níu af þeim 20 sem eru ákærðir starfsmenn fjölmiðlafyrirtækisins. Þar á meðal séu tveir útlendir fréttamenn sem ekki eru í haldi og eru ekki í Egyptalandi.

Sextán hinna ákærðu eru Egyptar og eru sakaðir um að tilheyra Bræðralagi múslima en stjórnmálasamtökin eru skilgreind sem hryðjuverkasamtök frá því í desember.

Þeir Greste og Fahmy voru handteknir á hótelherbergi í Kaíró þann 29. desember sl. eftir að húsleit var gerð í húsakynnum Al-Jazeera.

Greste starfaði áður hjá BBC og fékk meðal annars  Peabody verðlaunin árið 2011 fyrir heimildarmynd um Sómalíu.  

Fahmy,sem stýrir skrifstofu Al-Jazeera English í Kaíró, vann áður fyrir CNN og er ekki með nein tengsl við Bræðralag múslíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert