Sjúkraskýrslum Schumachers stolið

Læknar telja margir hverjir að Schumacher verði öryrki allt sitt …
Læknar telja margir hverjir að Schumacher verði öryrki allt sitt líf AFP

Gögnum sem tengjast formúlukappanum Michael Schumacher hefur verið stolið og halda þjófarnir því fram að um sé að ræða sjúkraskýrslur um ástand hans í kjölfar skíðaslyssins örlagaríka í desember.

Talskona Schumachers staðfesti í dag að gögnunum hefði verið stolið og þau boðin til sölu, en hún gat ekki fullyrt að um ósviknar sjúkraskýrslur væri að ræða. Lögregluyfirvöld vinna nú að rannsókn málsins, en talskonan ítrekaði að innihald gagnanna væri trúnaðarmál og varaði við kaupum eða dreifingu þeirra. Hún sagði jafnframt að þeir sem gerðu innihald þeirra opinbert gætu átt von á því að verða kærðir.

Schumacher dvelur nú á sjúkrahúsi í Lausanne í Sviss, en hann vaknaði úr dái fyrir viku síðan. Læknar eru hins vegar margir hverjir svartsýnir um framhaldið og hafa haldið því fram að kappakstursgoðsögnin gæti orðið öryrki allt sitt líf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert