Reyna sjálfsvíg til að bjarga börnunum

Á annan tug mæðra í áströlskum flóttamannabúðum hafa reynt að fremja sjálfsvíg til þess að reyna að tryggja það að börn þeirra verði ekki send úr landi.

Sydney Morning Herald segir frá því í dag að konurnar hafi reynt að fremja sjálfsvíg í vikunni eftir að hafa verið tjáð að þær verði fluttar frá flóttamannabúðunum í Jólaeyju til Papúa Nýju-Gíneu eða Narú.

Engir flóttamenn sem koma með bátum til landsins fá hæli í Ástralíu og skipta aðstæður þeirra engu. Þessi ákvörðun ástralskra stjórnvalda tók gildi þann 19. júlí í fyrra.

Forsætisráðherra Ástralíu, Tony Abbott, segir að hann muni ekki láta kúga sig með slíkum fréttum líkt og í Sydney Herald í dag. 

Mannréttindasamtök Ástralíu (Australian Human Rights Commission) segja í viðtali við AFP fréttastofuna að þau viti af sjö konum sem hafi annað hvort reynt að fremja sjálfsvíg, hótað því að fremja sjálfsvíg eða hafa skaðað sig á Jólaeyju undanfarna tvo daga. „Á undanförnum vikum höfum við fengið upplýsingar um þrettán hælisleitendur sem falla í þennan flokk,“ segir talskona samtakanna.

Mikill þrýstingur er á áströlsk stjórnvöld vegna hörkunnar sem beitt er í garð flóttamanna en hæstiréttur landsins er að skoða mál 153 flóttamanna frá Sri Lanka sem eru í haldi ástralskra yfirvalda. Einhverjir þeirra eru tamílar og er talið að þeir eigi á hættu að vera fangelsaðir og beittir ofbeldi í heimalandinu verði þeir sendir til baka.

Þegar hefur báti með 41 flóttamanni frá Sri Lanka verið snúið við til heimalandsins og hafa allir um borð verið ákærðir af stjórnvöldum í Colombo fyrir að hafa farið úr landi með ólöglegum hætti. Eiga þeir yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsisvist. 

Flóttamennirnir bera áströlskum yfirvöldum ekki góða söguna, segja að þeir hafi verið misnotaðir, sveltir og verr komið fram við þá en hunda af landamæravörðum. Ráðherra innflytjendamála, Scott Morrison, segir ekkert hæft í þessu og ummælin séu vart svaraverð.

Hann er nú á ferðalagi um Sri Lanka og mun meðal eiga fund með ráðherrum í Colombo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert