Krefjast þess að fá að umskera

Frá fjöldafundi Maasai-kvenna í Enkorika, Kajiado, í Kenýa um kynfæralimlestingar. …
Frá fjöldafundi Maasai-kvenna í Enkorika, Kajiado, í Kenýa um kynfæralimlestingar. Margar þeirra, ekki síst hinar eldri, telja hefðina órjúfanlegan þátt menningar sinnar og berjast gegn lögbanni stjórnvalda. AFP

Kynslóðabil hefur myndast hjá Maasai-ættbálknum í austurhluta Afríku vegna þeirrar aldagömlu hefðar að skera burt ytri kynfæri kvenna. Á hitafundi Maasai-kvenna í Kenýa í júlí andmæltu margar eldri kvenna harðlega banni gegn slíkri limlestingu. Yngri konur og karlar eru hinsvegar mörg fráhverf umskurði.

Um milljón Maasai-manna býr í Kenýa og Tansaníu, í austurhluta Afríku. Stjórnvöld beggja landa hafa bannað limlestingu á kynfærum kvenna með lögum, en verknaðurinn er þó enn stundaður í fjölmörgum Maasai-þorpum og mikil mótstaða er gegn afskiptum yfirvalda af hefðinni, ekki síst meðal eldri kvenna.

Ungar stúlkur flýja heimaþorp sín

Við lá að upp úr syði þegar 500 Maasai-konur komu saman á mótmælafundi í Enkorika í Kenýa, um 75 km frá Naíróbí. Þar lýstu margar konur áhyggjum af því að ungar stúlkur gengju ekki út og en yrðu þess í stað lauslæti að bráð, vegna þess að þær hefðu ekki verið umskornar. Þetta væri andstætt gildum Maasai-fólksins. Sumar kvennanna hótuðu kynlífsverkfalli, þ.e. að neita eiginmönnum sínum um kynlíf ef þeir sýndu ekki stuðning við baráttu þeirra.

Það fylgir hinsvegar sögunni að æ fleiri ungir Maasai-karlar, sem í auknum mæli yfirgefa þorpin um tíma til að stunda nám í borgunum, séu að verða andsnúnir þessari meðferð á konum. Þá eru dæmi þess að ungar stúlkur flýi úr Maasai-þorpum til að forðast kynfæralimlestingu. 

Ein þeirra er Faith Lenkihshon, 12 ára gömul, sem strauk að heiman þegar henni barst til eyrna að brátt yrði hún umskorin. „Ég get aldrei snúið aftur heim, vegna þess að ef ég geri það þá gætu þau ákveðið að umskera mig,“ sagði hún í viðtali við BBC. Lenkihshon fékk inni á heimili fyrir stúlkur sem hafa flúið, þar sem meiri áhersla er lögð á að ungar stúlkur fái menntun en að þær gangi í hjónaband.

Taka ekki mark á rökum læknisfræðinnar

BBC ræddi við eina kvennanna, Esther Shamashina, sem vitnaði í svahílí-málsátt sem segir að þeir sem snúi baki við menningu sinni verði þrælar. „Hvers vegna vill fólk gera mig að þræl?“ spurði hún og vísaði á bug rökum læknisfræðinnar fyrir því að limlesting á kynfærum sé ógn við heilsu kvenna.

„Við teljum að það sé auðveldara fyrir konu sem hefur verið umskorin að fæða barn. Ef stúlka sem ekki hefur verið umskorin verður þunguð, þá verður að skera hana áður en hún fæðir og þá fær hún ör. Annars get ég, sem móðir, ekki snert slíka stúlku. Hún er saurguð og mun aldrei finna eiginmann,“ sagði Shamashina.

UNICEF, barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, áætlar að yfir 125 milljón stúlkur og konur í heiminum hafi mátt þola kynfæralimlestingu. Mikill meirihluti þeirra er í Afríku, en verknaðurinn er þó á undanhaldi og stuðningur við hann fer minnkandi í öllum löndum þar sem hann er enn stundaður, að sögn SÞ.

Ekki trúarlegs eðlis

Kynfæralimlesting er ekki trúarlegs eðlis heldur liggja rætur hennar fremur í fáfræði og samfélagsbundu kynjamisrétti þar sem litið er á konur sem eign karla. Þótt kynfæralimlesting sé gjarnan tengd múslímum er hún ekki bundin íslam, heldur er hún m.a. útbreidd í samfélagi kristinna í Nígeríu og í ættbálkum eins og Maasai, sem eru náttúrutrúar. Í sumum múslímasamfélögum er kynfæralimlesting fordæmd, s.s. í Afríkuríkinu Márítaníu þar sem 34 íslamskir fræðimenn gáfu árið 2010 út s.k. fatwa, trúarlegan dóm, gegn slíkum aðgerðum.

Maasai-fólkið hefur skorið kynfæri kvenna í hundruð ára. Hefðin virðist eiga uppruna sinn í þjóðsögunni um Naipei, unga stúlku sem lagðist með höfuðandstæðingi ættbálksins. Samkvæmt sögunni var henni refsað með kynfæraskurði, til að koma í veg fyrir þær kynferðislegu hvatir sem ráku hana áfram. Allar götur síðan hafa Maasaistúlkur verið skornar um það leyti sem þær ná kynþroska, 12–14 ára gamlar, í því skyni að bæla kynlöngunina og verja þannig heiður þeirra.

Þess má geta að Maasai-drengir eru einnig umskornir í n.k. manndómsvígslu. Sú aðgerð er þó ekki eins harkalegt inngrip og í líkama stúlkna og hefur sjaldnast jafnalvarlegar heilsufarslegar afleiðingar.

Ólíklegri en mæður þeirra til að verða limlestar

Mikilvægt skref var tekið þegar stjórnvöld í Tansaníu gerðu limlestingu á kynfærum kvenna refsiverða með lögum sem samþykkt voru 1998, og stjórnvöld í Kenýa tóku sama skref árið 2002. Í desember í fyrra gerði lögregla í norðurhluta Tansaníu rassíu á athöfn Maasai-fólks þar sem verið var að umskera tugi stúlkna.

Fátítt er þó að fjölskyldum sé refsað, og tilraunir stjórnvalda til að koma í veg fyrir þennan verknað hafa enn takmarkaðan árangur borið. Maasai-samfélagið er afar náið og þau fylgja eigin reglum umfram landslögum. Að sögn SÞ bendir þó ýmislegt til að utanaðkomandi áhrif séu smám saman farin að breyta lífshætti Maasai-fólksins og að draga muni mjög úr tíðni umskurða með nýrri kynslóð. Vonir standa til að siðvenjan deyi á endanum út.

Viðamikil rannsókn SÞ sem birt var í fyrra bendir til þess að í þessum tveimur löndum séu stúlkur í dag þrefalt ólíklegri til að verða fyrir limlestingu en mæður þeirra voru.

Auk þeirra Afríkulanda sem nefnd eru hér að ofan hefur kynfæralimlesting einnig verið bönnuð með lögum á Fílabeinsströndinni, í Benín, Djíbútí, Egyptalandi, Erítreu, Eþíópíu, Gana, Gíneu, Níger, Nígeríu, Mið-Afríkulýðveldinu, Senegal, Tsjad, Tógó og Úganda.

Frá fjöldafundi Maasai-kvenna í Enkorika, Kajiado, í Kenýa um kynfæralimlestingar. …
Frá fjöldafundi Maasai-kvenna í Enkorika, Kajiado, í Kenýa um kynfæralimlestingar. Margar þeirra, ekki síst hinar eldri, telja hefðina órjúfanlegan þátt menningar sinnar og berjast gegn lögbanni stjórnvalda. AFP
Frá fjöldafundi Maasai-kvenna í Enkorika, Kajiado, í Kenýa um kynfæralimlestingar. …
Frá fjöldafundi Maasai-kvenna í Enkorika, Kajiado, í Kenýa um kynfæralimlestingar. Margar þeirra, ekki síst hinar eldri, telja hefðina órjúfanlegan þátt menningar sinnar og berjast gegn lögbanni stjórnvalda. AFP
Frá fjöldafundi Maasai-kvenna í Enkorika, Kajiado, í Kenýa um kynfæralimlestingar. …
Frá fjöldafundi Maasai-kvenna í Enkorika, Kajiado, í Kenýa um kynfæralimlestingar. Margar þeirra, ekki síst hinar eldri, telja hefðina órjúfanlegan þátt menningar sinnar og berjast gegn lögbanni stjórnvalda. AFP
Frá fjöldafundi Maasai-kvenna í Enkorika, Kajiado, í Kenýa um kynfæralimlestingar. …
Frá fjöldafundi Maasai-kvenna í Enkorika, Kajiado, í Kenýa um kynfæralimlestingar. Margar þeirra, ekki síst hinar eldri, telja hefðina órjúfanlegan þátt menningar sinnar og berjast gegn lögbanni stjórnvalda. AFP
Frá fjöldafundi Maasai-kvenna í Enkorika, Kajiado, í Kenýa um kynfæralimlestingar. …
Frá fjöldafundi Maasai-kvenna í Enkorika, Kajiado, í Kenýa um kynfæralimlestingar. Margar þeirra, ekki síst hinar eldri, telja hefðina órjúfanlegan þátt menningar sinnar og berjast gegn lögbanni stjórnvalda. AFP
Frá fjöldafundi Maasai-kvenna í Enkorika, Kajiado, í Kenýa um kynfæralimlestingar. …
Frá fjöldafundi Maasai-kvenna í Enkorika, Kajiado, í Kenýa um kynfæralimlestingar. Margar þeirra, ekki síst hinar eldri, telja hefðina órjúfanlegan þátt menningar sinnar og berjast gegn lögbanni stjórnvalda. AFP
Frá fjöldafundi Maasai-kvenna í Enkorika, Kajiado, í Kenýa um kynfæralimlestingar. …
Frá fjöldafundi Maasai-kvenna í Enkorika, Kajiado, í Kenýa um kynfæralimlestingar. Margar þeirra, ekki síst hinar eldri, telja hefðina órjúfanlegan þátt menningar sinnar og berjast gegn lögbanni stjórnvalda. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert