Farþegaþota frá Malaysian Airlines hrapaði í austurhluta Úkraínu í dag. Talið er að 295 hafi verið um borð, 280 farþegar og 15 manna áhöfn. Vélin var á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur. Fréttastofan Interfax segir að vélin hafi verið skotin niður. Haft er eftir sjónarvottum að brak og lík sjáist á svæðinu. Rússneska fréttastofan fullyrðir að enginn hafi komst lífs af. Myndir eru þegar teknar að birtast af sundurtættum líkum, m.a. á Twitter. Fréttamaður Reuters, sem er á staðnum, segir að þar sjáist brak, m.a. úr væng flugvélar í einkennislitum Malaysian Airlines. Þá séu lík á víð og dreif um svæðið.
Interfax segir að vélin hafi verið í um 10 km hæð, 33 þúsund fetum, er hún var skotin niður með flugskeyti, svokölluðu BUK, sem líta út eins og sést hér að neðan:
Malaysian Airlines flight #MH17 reported to have been shot down by BUK-M1 [aka SA-11] surface-to-air missile system pic.twitter.com/UWwFifWhZr
— NATOSource (@NATOSource) July 17, 2014
Hefur fréttastofan þetta eftir heimildarmanni úr úkraínska innanríkisráðuneytinu. Yfirvöld í Úkraínu hafa enn ekki staðfest þessar fréttir, aðeins að vélin hafi hrapað.
Á svæðinu sem vélin hrapaði berjast aðskilnaðarsinnar af hörku við her Úkraínu. Vélin, sem er af gerðinni Boeing 777, hrapaði í nágrenni bæjarins Shaktarsk, skammt frá landamærunum að Rússlandi. Haft er eftir sjónarvottum í nágrenni slysstaðarins að þeir hafi séð flak vélarinnar og einnig lík þeirra sem voru um borð. Aðskilnaðarsinnar á svæðinu sem og úkraínski herinn hafa neitað því að bera ábyrgð á hrapi vélarinnar. „Við útilokum ekki að vélin hafi verið skotin niður og staðfestum að úkraínski herinn skaut ekki að neinum skotmörkum á himni,“ segir Petro Porosjenkó, forseti Úkraínu á vefsíðu sinni. Í stuttu máli er staðan sú að úkraínski herinn sakar aðskilnaðarsinna um að bera ábyrgð á hrapi vélarinnar og öfugt.
Vélin er frá flugfélaginu Malaysian Airlines, því sama og átti vélina sem hvarf sporlaust fyrir nokkrum mánuðum.
Malaysian Airlines segir á Twitter að samband við vélina hafi rofnað er hún var yfir Úkraínu. Flugfélagið staðfestir einnig að vélin hafi farið frá Amsterdam kl. 12.14 að staðartíma.
Vélin hrapaði um 50 kílómetrum frá landamærunum að Rússlandi. Hún hafi lækkað flugið og síðar fundist logandi á jörðinni.
Á síðustu vikum hafa nokkrar herflugvélar úkraínska hersins verið skotnar niður. Úkraínustjórn hefur sakað Rússa um að útvega aðskilnaðarsinnum í austurhluta landsins flugskeytin. Í morgun sakaði svo stjórnin Rússa um að hafa skotið niður eina af vélum hersins.
Björgunarmenn á vettvangi segjast hafa fundið meira en hundrað lík. Brak úr vélinni dreifðist hins vegar yfir svæði sem er fimmtán kílómetrar að þvermáli. Því er mikið verk óunnnið.
Malaysia Airlines flight #MH17 just before it disappeared over Ukraine. pic.twitter.com/xvDHsEQtkg
— Flightradar24 (@flightradar24) July 17, 2014