Ekkja reykingamanns fær háar bætur

Einn stærsti tóbaksframleiðandi í Bandaríkjunum var í gær dæmdur til að greiða ekkju reykingamanns sem lést úr lungnakrabbameini 23,6 milljarða bandaríkjadala í skaðabætur.

BBC greinir frá þessu.

Þar að auki var RJ Reynolds-tóbaksfyrirtækið dæmt til að greiða 16,8 milljónir dala í miskabætur. Forsvarsmaður fyrirtækisins segir niðurstöðuna vera óhóflega og að hún gangi bæði gegn ríkislögum og stjórnarskránni.

Cynthia Robinson hóf málarekstur gegn fyrirtækinu árið 2008 þar sem hún fór fram á bætur vegna dauða eiginmanns síns árið 1996.  Robinson hélt því fram að framleiðandinn hefði gerst sekur um vanrækslu með því að upplýsa ekki viðskiptavini sína um hætturnar sem fylgja reykingum. Vanrækslan hafi leitt til þess að eiginmaður hennar fékk lungnakrabba eftir að hafa orðið háður reykingum og ekki náð að hætta þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

„RJ Reynolds-fyrirtækið tók áhættu þegar það framleiddi sígarettur og seldi neytendum án þess að upplýsa þá um hætturnar sem því fylgja,“ sagði lögmaður Robinson, Willie Gary. „Við vonumst til þess að niðurstaðan sendi skýr skilaboð til RJ Reynolds og annarra tóbaksframleiðanda og neyði þá til þess að hætta að stofna lífi saklausra borgara í hættu,“ sagði hann.

RJ Reynolds mun áfrýja niðurstöðunni að sögn aðstoðarforstjóra fyrirtækisins. „Niðurstaðan fer langt út fyrir öll sanngirnismörk og gengur gjörsamlega gegn sönnunargögnum málins,“ sagði í yfirlýsingu. „Við munum áfrýja mjög fljótlega og erum þess fullvissir að lögum verði fylgt og dómurinn því ekki látinn standa.“

Bæturnar eru sagðar þær hæstu sem dæmdar hafa verið í einkamáli í Flórídaríki.

Svipuðum málum hefur lokið með lægri bótafjárhæð eftir að áfrýjunardómstóll sagði reykingamenn og fjölskyldur þeirra einungis þurfa að sanna að fíkn og reykingar hefðu valdið veikindum þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert