„Mun aldrei yfirgefa Gammy“

Gammy
Gammy Mynd af styrktarsíðu Hope for Gammy

Taílenska staðgöngumóðirin sem fæddi drenginn með Downs-heilkennið sem foreldrarnir yfirgáfu sór þess eið í dag að yfirgefa hann aldrei.

Málið hefur hlotið mikla athygli eftir að ástralskir foreldrar drengsins neituðu að taka við honum en tóku hins vegar við heilbrigðri tví­bura­syst­ur hans.

Hin 21 árs gamla Pattaramon Chanbua er staðgöngumóðirin og má segja að hún hafi staðið í auga stormsins undanfarna daga þegar heitar rökræður um réttmæti staðgöngumæðrunar hafa átt sér stað.

Drengurinn heitir Gammy og hefur legið á spítala síðastliðna daga vegna sýkingar í lunga og hjartagalla. Chanbua hefur heitið því að sjá um hann. „Það er blessun í þessum óheppilegu aðstæðum að við getum verið saman,“ sagði hún. „Ég hugsaði aldrei um að fara í fóstureyðingu og mér datt aldrei í hug að yfirgefa hann. Ég elska hann líkt og hann væri mitt eigið barn. Hann er minn og ég elska hann mjög mikið,“ sagði hún. Þá sagði hún Gammy verða sterkari með hverjum deginum sem liði.

Söfnun fyrir Gammy gengur vel

Um 215 þúsund bandaríkjadalir, eða um 24 milljónir íslenskra króna, hafa safnast fyrir sjúkrareikningum drengsins í gegnum styrktarsíðuna „Hope for Gammy“ en Chanbua býr við mikla fátækt og tók meðgönguna að sér til þess að greiða upp skuldir og eiga fyrir menntun tveggja barna sinna.

Ráðherra innflytjendamála í Ástralíu sagði í dag að Chanbua væri hetja fyrir að taka að sér barnið þrátt fyrir að eiga sjálf tvö ung börn og lifa í fátækt. „Þetta er alveg hræðilegt og nístir hjartað,“ sagði ráðherrann Scott Morrison um málið. „En það verður að segjast að hún er algjör hetja. Hún er dýrlingur,“ sagði hann.

Vildu að hún færi í fóstureyðingu

Líffræðilegir foreldrar Gammy hafa enn ekki stigið fram til þess að segja frá sinni hlið málsins en vitað er að Chanbua fékk 14.900 bandaríkjadali, eða um 1,7 millj­ónir ís­lenskra króna, fyrir að ganga með börnin. Þá var eggið úr annarri taílenskri konu en frjóvgað af ástralska manninum. Hún hefur neitað að gefa upp nafn stofunnar sem sá um að koma á staðgöngumeðgöngunni. Hún segir þó að starfsmenn stofunnar hafi sagt henni að áströlsku foreldrarnir vildu að hún færi í fóstureyðingu eftir að í ljós kom að drengurinn væri með Downs-heilkenni. Því hafi hún neitað.

Ólöglegt er að fara í fóstureyðingu í Taílandi nema í undantekningartilvikum þegar heilsu móðurinnar er stefnt í hættu með meðgöngunni eða henni hefur verið nauðgað. „Stofan sagði að hjónin myndu borga fyrir fóstureyðinguna. En þau virtust ekki skilja að ég hefði verið handtekin, rétt eins og fyrir manndráp, hefði ég gert það.“

Staðgöngumæðrun í ágóðaskyni er ekki leyfð í Ástralíu en pör geta þó notað staðgöngumóður ef hún fær engar greiðslur aðrar en fyrir sjúkrareikningum og öðrum tilfallandi kostnaði við meðgönguna. Til að fara í kringum reglurnar hafa áströlsk pör í auknum mæli leitað til annarra landa til þess að finna konur sem eru viljugar til þess að ganga með börnin. Mörg hundruð pör ferðast nú í þessum tilgangi til Indlands, Taílands og Bandaríkjanna á hverju ári.

Taílensk heilbrigðisyfirvöld segja það einnig ólöglegt að greiða fyrir staðgöngumeðgöngu í Taílandi og að sá sem gengur með barnið þurfi að vera skyldur foreldrunum.

Fyrri frétt mbl: Yfirgáfu barn með Downs-heilkenni

Gammy ásamt bróður sínum en Chanbua átti tvö börn fyrir.
Gammy ásamt bróður sínum en Chanbua átti tvö börn fyrir. Mynd af styrktarsíðu Hope for Gammy
Háir sjúkrareikningar fylgja Gammy og hefur vel gengið að safna …
Háir sjúkrareikningar fylgja Gammy og hefur vel gengið að safna fyrir fjölskyldunni í gegnum styrktarsíðuna Hope for Gammy Mynd af styrktarsíðu Hope for Gammy
mbl.is