Vill fá stúlkuna til sín

Gammy ásamt staðgöngumóður sinni.
Gammy ásamt staðgöngumóður sinni. NICOLAS ASFOURI

Staðgöngumóðir drengsins Gammys segist vera í áfalli eftir að hafa heyrt fregnir þess efnis að kynfaðir Gammys sé dæmdur barnaníðingur. Hún hefur jafnframt sagt við fjölmiðla að hún vilji tvíburasystur Gammys, sem býr með foreldrum sínum í Ástralíu, aftur til sín.

Chanuba fæddi tvíbura fyrir áströlsk hjón seint á síðasta ári. Samkvæmt henni tóku hjónin þó aðeins annað barnið með sér til Ástralíu eftir að þau komust að því að Gammy væri með Downs-heilkennið. Heldur hún því einnig fram að áströlsku foreldrarnir hefðu viljað hún færi í fóstureyðingu eftir að fötlun drengsins kom í ljós. Því hefði Chanuba þó neitað. 

Saga Gammys hefur vakið heimsathygli og áströlsku foreldrarnir hlotið mikla gagnrýni fyrir að hafa yfirgefið Gammy.

Gammy fæddist tveimur mánuðum fyrir tímann í desember á seinasta ári. Gammy var mjög veikur þegar hann fæddist og er hann bæði með hjartasjúkdóm og sýkingu í lungum. Áströlsku foreldrarnir segja þó að ásakanir Chanuba séu ekki réttar. 

Vinur fjölskyldunnar segir að foreldrarnir hafi ekki vitað að Gammy væri með Downs-heilkennið heldur að hann væri hjartveikur og við dauðans dyr. „Gammy var mjög veikur þegar hann fæddist og foreldrunum var sagt að hann myndi ekki lifa af,“ sagði vinurinn í samtali við fréttastofuna Sky. 

Jafnframt segir fjölskylduvinurinn að erfitt hafi verið fyrir foreldrana að koma systur Gammys til Ástralíu vegna valdaráns í Taílandi fyrr á þessu ári. „Foreldrarnir voru miður sín að þau gátu ekki tekið drenginn með sér og vildu aldrei skilja hann eftir. En með því að vera kyrr með Gammy áttu þau í hættu á að missa dóttur sína einnig.“

Chanuba hefur hinsvegar alltaf haldið því fram að áströlsku foreldrarnir hafi vitað um ástand Gammys og hafi skilið hann viljandi eftir í Taílandi. 

mbl.is