Hafa nú rætt við föður Gammy

Gammy ásamt staðgöngumóðurinni Patt­aramon Chan­bua.
Gammy ásamt staðgöngumóðurinni Patt­aramon Chan­bua. AFP

Yfirvöld í Ástralíu hafa nú loksins náð sambandi við líffræðilegan föður Gammys, drengs sem áströlsk hjón eignuðust með hjálp taílenskrar staðgöngumóður. Fullorðinn sonur mannsins segir föður sinn vera breyttan mann eftir fangelsisvist.

Eftir að staðgöngumóðirin sagði foreldrana hafa yfirgefið Gammy, þar sem hann er með Downs-heilkenni, hefur því verið haldið fram að ástralski maðurinn hafi verið fundinn sekur um rúmlega tuttugu kynferðisafbrot gegn börnum.

Ástralski maðurinn á þrjú börn á fullorðinsaldri. Eitt þeirra segir hann vera breyttan mann eftir að hafa setið af sér dóm fyrir sex brot. „Ég get sagt þér hversu góður faðir hann hefur verið gagnvart okkur. Hann er ótrúlegur,“ segir sonur mannsins í samtali við Fairfax Media. „Hann er með mjög stórt hjarta. Hann gerði mistök, við höfum tekið því ... Hann bætti fyrir þau.“

Barnaverndaryfirvöld hafa gert margar tilraunir til að hafa uppi á manninum síðustu tvo daga, en meðal annars stendur til að kanna hvernig systir Gammys hefur það. Hún er núna rúmlega sjö mánaða og dvelur hjá foreldrum sínum í Ástralíu.

Ráðherra barnaverndarmála staðfesti í morgun að ráðuneytið hefði náð sambandi við líffræðilegu foreldrana. Hún sagði einnig að foreldrarnir ættu rétt á að einkalíf þeirra yrði virt og frekari upplýsingar yrðu ekki gefnar á meðan á rannsókn málsins stendur. 

mbl.is