„Misskilningur“ í máli Gammys

Staðgöngumóðirin Pattaramon Chanbua með Gammy.
Staðgöngumóðirin Pattaramon Chanbua með Gammy. AFP

Taílensk yfirvöld hafa gert húsleit á læknastöð í Bangkok sem tengist máli Gammys litla. Sú sem hafði milligöngu um staðgöngumæðrunina segir að það hafi orðið „misskilningur“ í kjölfar þess að í ljós kom að annað fóstrið sem staðgöngumóðirin gekk með fyrir ástralskt par væri með downs-heilkenni.

Þetta kemur fram í The Sidney Morning Herald.

„Það var bara þannig að enginn vissi hvað ætti að gera,“ hefur dagblaðið eftir Kamonthip Musikawong, sem var milligöngumaður um staðgöngumæðrunina.

Kamonthip segir að staðgöngumóðirin og ástralska parið hafi ekki verið sammála undir lok meðgöngunnar um framhaldið sem og fyrstu vikurnar eftir að tvíburasystkinin fæddust. Þau fæddust fyrir tímann og dvöldu á sjúkrahúsi í Bangkok.

„Við urðum að láta parið ráða en við fundum bara enga lausn,“ sagði Kamonthip í viðtali við ABC-sjónvarpsstöðina. Hún segir að staðgöngumóðirin hafi svo komið með lausnina, að hún myndi halda drengnum. Vefsíðu Kamonthip hefur nú verið lokað.

Samkvæmt heimildum The Sydney Morning Herald eru fleiri dæmi um það að pör neiti að taka við fötluðum börnum sem staðgöngumæður hafa gengið með. 

Læknastöðin sem húsleit var gerð hjá hefur öll tilskilin leyfi. Hins vegar er staðgöngumóðirin ekki skyld ástralska parinu og hún fékk greitt fyrir en þetta tvennt er brot á taílenskum lögum um staðgöngumæðrun. 

Búið er að loka læknastofunni. Læknarnir sem þar störfuðu gætu verið dæmdir til allt að þriggja ára fangelsisvistar hafi þeir komið að málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert