Berjast fyrir að fá Gammy litla aftur

Gammy ásamt bróður sínum en Pattaramon átti tvö börn fyrir.
Gammy ásamt bróður sínum en Pattaramon átti tvö börn fyrir. Mynd af styrktarsíðu Hope for Gammy

Áströlsku hjónin sem yfirgáfu Gammy litla, dreng með Downs-heilkenni, komu fram á sjónvarpsstöðinni Channel Nine í dag og sögðust munu berjast fyrir því að fá hann aftur í fangið.

Þetta er fyrsta sjónvarpsviðtalið sem hjónin veita eftir að fréttir bárust af því að þau hefðu skilið drenginn eftir hjá Pattaramon Chanbua, 21 árs staðgöngumóður hans, en hjónin tóku Pipah, tvíburasystur drengsins, með sér heim.

„Við sögðum aldrei að Pattamon mætti halda barninu,“ sagði David Farnell í viðtalinu, líffræðilegur faðir barnanna og dæmdur barnaníðingur. Hann bætti við að Pattamon hefði viljað halda stúlkubarninu og þess vegna hefðu hjónin farið frá Taílandi. „Við vorum hrædd um að missa hana líka og þess vegna reyndum við að koma henni í burtu,“ sagði Farnell.

Áður höfðu hjónin sagt að þau hefðu skilið Gammy litla eftir vegna hjartagalla og að læknar á sjúkrahúsinu hefðu sagt að hann ætti skammt eftir ólifað. Gammy, sem er sjö mánaða, er hins vegar með heilbrigt hjarta í dag.

Segir hjónin hafi skipað sér að eyða fóstrinu

Pattaramon heldur því fram að hjónin hafi skipað sér að fara í fóstureyðingu þegar ljóst var að drengurinn var með Downs-heilkenni. Slík aðgerð er ólögleg í Taílandi. „Við hvorki skildum hann eftir né skipuðum Pattaramon að fara í fóstureyðingu,“ sagði Farnell en viðurkenndi að hjónin hefðu velt því fyrir sér.

Hann sagði að þau hefðu ekki reynt að hafa samband við aðstandendur Gammy síðan þau fóru frá Taílandi. „Við höfum einbeitt okkur að því að tryggja öryggi Pipah. Þegar við vitum að hún er 100% örugg hjá okkur getum við farið og náð í drenginn okkar,“ sagði Farnell og útskýrði að þar sem Pipah er fædd í Taílandi er hún ekki ástralskur ríkisborgari.

Yfirvöld í Taílandi hyggjast nú herða reglur um staðgöngumæðrun eftir fréttirnar af Gammy litla.

mbl.is