Alamuddin hafnar rannsóknarstöðunni

Alamuddin er lögfræðingur með gráðu frá bæði Oxford-háskóla og New …
Alamuddin er lögfræðingur með gráðu frá bæði Oxford-háskóla og New York-háskóla. mbl.is/AFP

Amal Alamuddin, unnusta stórleikarans George Clooney, hefur hafnað stöðu í rannsóknarnefnd á vegum mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sökum anna.

Hún var skipuð í nefndina í gær, en hún hefði orðið einn af þremur sérfræðingum nefndar sem rannsakar ásókn Ísraelshers á Gaza-ströndina. 

Yfirmaður mannréttindanefndar SÞ, Baudelaire Ndong Ella, segir ástæðu þess að Alamuddin hafnaði stöðunni vera að hún hafi þegar verið skuldbundin í öðrum verkefnum. Hann bætti við að henni þætti jafnframt leitt að geta ekki nýtt sérþekkingu sína á þessu sviði í verkefnið.

Ella skipaði í gær þrjá nefndarmenn sérstakrar rannsóknarnefndar um átökin á Gaza-svæðinu, en nefndinni ber að skila skýrslu í mars. Hann hafði samband við hugsanlega nefndarmenn áður en hann tilkynnti um hverjir hefðu verið skipaðir, en nokkrum klukkustundum síðar hafði Alamuddin sagt sig frá verkefninu.

Þrátt fyrir fráhvarf hennar segir Ella að nefndin sé starfhæf og muni þegar hefjast handa við rannsóknina. Í nefndinni eru þaulreyndir lögfræðingar, en ásamt Alamuddin voru skipaðir kanadíski alþjóðaréttarsérfræðingurinn William Schabas og Doudou Diene frá Senegal, en hann hefur áður starfað fyrir SÞ í baráttu gegn kynþáttaníði á Fílabeinsströndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert