Fengu ekki að fara með barnið úr landi

Frá læknastofu í Taílandi sem framkvæmir tæknifrjóvganir á staðgöngumæðrum.
Frá læknastofu í Taílandi sem framkvæmir tæknifrjóvganir á staðgöngumæðrum. AFP

Samkynhneigt, ástralskt par má ekki fara frá Taílandi með barn sitt, sem það eignaðist með aðstoð staðgöngumóður þar í landi. Yfirvöld í Taílandi segja að ekki hafi verið gengið frá öllum pappírum sem til þarf svo að barnið megi yfirgefa landið.

Mikil umræða hefur skapast um staðgöngumæðrun í Taílandi síðustu vikur vegna máls Gammys litla. Gammy er með downs-heilkenni og vildu ástralskir foreldrar hans ekki taka hann með sér til Ástralíu, aðeins tvíburasystur hans sem er ekki með litningagallann.

Karlmennirnir tveir sem ætluðu að fara með barn sitt frá Taílandi til Singapore í gegnum helsta flugvöll landsins voru stöðvaðir á flugvellinum. 

Lögreglan segir að óljóst sé hvort að staðgöngumóðir hafi í raun gengið með barnið.

„Þeir voru ekki með skjöl til að sanna að faðir barnsins sé löglegur forráðamaður þess, svo að við báðum þá að finna þessi skjöl og leggja fram í dómi,“ segir lögreglustjórinn. Hann segir að þeir séu fyrsta parið sem stöðvað er vegna þessa á flugvelli landsins. Yfirvöld á Taílandi hafa heitið því að fylgjast betur með staðgöngumæðrun í landinu.

Ástralskir fjölmiðlar fullyrða hins vegar að fjögur pör hafi verið stöðvuð á flugvellinum síðustu daga með börn sín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert