Nauðgað vikulega í þrjú ár

Frá Rotherham í Bretlandi.
Frá Rotherham í Bretlandi. Google Maps

Fórnarlamb nauðgana í Rotherham í Bretlandi segir niðurstöður nýútkominnar skýrslu um viðamikil kynferðisafbrot gegn börnum í bænum viðbjóðslegar en komi ekki á óvart. Talið er að brotið hafi verið gegn 1.400 börnum á árunum 1997 til 2013. Skýrslan var unnin að beiðni borgarráðs Rotherham Borough.

Unga konan, sem nú er 24 ára gömul, segir að henni hafi ítrekað verið nauðgað þegar hún á unglingsaldri. Hún segir að yfirvöld hafi glatað sönnunargögnum sem hún útvegaði og skilaði inn. „Þessir sérfræðingar sátu við skrifborð sín, þáðu laun, vissu að þetta var í gangi og gerðu ekkert í því. Frá mínu sjónarhorni séð eru þeir jafn slæmir eða jafnvel verri en þeir sem frömdu glæpina,“ sagði fórnarlambið.

Hún segir að henni hafi verið nauðgað vikulega frá 12 til 15 ára aldurs. Fjölskylda hennar flutti til annars bæjar eftir að lögregla brást ekki við athugasemdum frá foreldrum hennar sem tilkynntu misnotkunina.

Börnunum var nauðgað, jafnvel af hópi fólks, þeim var rænt, þau voru flutt á milli borga á Englandi, þau máttu þola barsmíðar og þeim var hótað. Í frétt breska ríkisútvarpsins kemur meðal annars fram að eldsneyti hafi verið hellt yfir börnin og þeim hótað að kveikt yrði í þeim. Þá var þeim einnig hótað með byssum, látin horfa á grófar nauðganir og hótað að þau yrðu næst, segðu þau einhverjum frá.

Svo virðist sem flestir gerendurnir séu frá Pakistan. Talið er hugsanlegt að málið hafi verið þaggað niður þar sem rannsakendur óttuðust að vera sakaðir um kynþáttahatur.

Frétt BBC.

Skýrslan í heild sinni

Frétt mbl.is: Brotið kynferðislega gegn 1.400 börnum árum saman. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert