Hótanir hafi aðeins öfug áhrif

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, ávarpaði breska þingið í dag og sagði að ríkisstjórn landsins myndi aldrei láta undan kröfum hryðjuverkamanna. Tilefni ummælanna var aftaka svonefnds Ríkis íslams á tveimur bandarískum blaðamönnum að undanförnu en búist er við að breskur gísl verði næst tekinn af lífi.

Cameron fordæmdi morðin á bandaríska blaðamanninum Steven Sotloff en myndband af aftöku hans var sett á internetið í gær. Áður hafði landi hans James Foley hlotið sömu örlög. Lýsti hann bæði og reiði og hneykslan yfir því að svo virtist sem morðinginn væri breskur þegn. Hugur ríkisstjórnar Bretlands væri hjá breska fanganum.

„En svo það sé alveg á hreinu. Bretland mun aldrei láta undan kröfum hryðjuverkamanna. Barátta okkar gegn ISIL [annað nafn á Ríki íslams] heldur áfram heimafyrir og erlendis. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir eðli þeirrar hættu sem við stöndum frammi fyrir. Hún gerir engan greinarmun á menningu, löndum eða trúarbrögðum. Það er ekki hægt að friða hana.“

Cameron sagði einu leiðina til þess að sigrast á Ríki íslams væri að hvika hvergi og senda skýr skilaboð um að Bretland myndi ekki gefast upp fyrir slíkum villimannlegum morðingjum. „Ef þeir halda að við látum undan síga vegna hótana þeirra hafa þeir rangt fyrir sér. Þær hafa öfug áhrif.“

Bretar myndu þess í stað leggja aukna áherslu á að standa vörð um þau gildi sem væru þeim kærust. Frelsið, réttarríkið og lýðræðið. Fréttavefur breska dagblaðsins Daily Telegraph greinir frá þessu í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina