Talning stendur yfir í Skotlandi

Mikil spenna ríkir nú í Skotlandi en fyrstu tölur eru …
Mikil spenna ríkir nú í Skotlandi en fyrstu tölur eru væntanlegar milli hálf eitt og eitt í nótt. AFP

Talning atkvæða stendur nú yfir í Skotlandi en hún hófst um leið og kjörstöðum var lokað klukkan níu í kvöld.  Skoskir kjósendur gengu í dag til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Skotland eigi að verða sjálfstætt ríki eða vera áfram hluti af breska konungdæminu

Búist er við fyrstu tölum á milli hálf eitt og eitt í nótt. Ekki er þó víst að mikið verði að marka tölurnar þar sem minnstu kjördæmin verða fyrst til að ljúka talningu.

Töl­ur úr stærstu bæj­ar­fé­lög­un­um, Glasgow, Ed­in­borg og Aber­deen koma lík­lega ekki fyrr en und­ir morg­un. Um 25% atkvæðabærra manna búa í þeim þremur borgum og búist er við tölum þaðan á milli fjögur og fimm í nótt.

Kosningabaráttan hefur kveikt í mörgum Skotum sem hafa ekki sýnt mikinn áhuga á þjóðmálum hingað til. Fregnir bárust meðal annars af því að áttræð kona hefði kosið í fyrsta skipti á ævinni í dag.

„Mér líður öðruvísi í dag en í fyrri kosningum. Ég gæti verið að taka þátt í breytingum og atkvæði mitt skiptir máli,“ sagði hinn 23 ára Aidan Ford í samtali við AFP-fréttaveituna eftir að hann skilaði inn atkvæði sínu í dag.

Sumir komu klæddir skotapilsi til að skila inn atkvæðinu en almennt var mikið að á kjörstöðum í dag. Talið er að kjörsókn verði um 80%.

Elísabet drottning fylgist með stöðu mála frá heimili sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert