Leiðtogar ESB fagna niðurstöðunni

José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB.
José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB. AFP

Forystumenn Evrópusambandsins fögnuðu í morgun niðurstöðu þjóðaratkvæðisins í Skotlandi í gær þar sem meirihluti kjósenda hafnaði því að segja skilið við breska konungdæmið. Niðurstaðan væri til þess fallin að sameina betur ríki sambandsins.

„Ég fagna þeirri ákvörðun skosku þjóðarinnar að viðhalda ríkjasambandinu við Bretland,“ er haft eftir José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB, í frétt AFP. „Þessi niðurstaða er góð fyrir þá sameinaðu, opnu og öflugu Evrópu sem framkvæmdastjórnin stendur fyrir.“ Forseti leiðtogaráðs ESB, Herman Van Rompuy, tók í sama streng. Niðurstaða þýddi að Bretland verði áfram mikilvægur hluti af sambandinu til hagsbóta fyrir alla Breta og önnur ríki þess.

Fram kemur í fréttinni að hvorki Barroso eða Van Rompuy hafi minnst á fyrirhugað þjóðaratkvæði í Bretlandi um veru landsins í ESB sem David Cameron, forsætisráðherra landsins, hefur heitið árið 2017 fái hann umboð til þess í þingkosningunum á næsta ári. ESB fylgist hins vegar náið með þróun mála í þeim efnum og hafi ítrekað lagt áherslu á að vera Bretlands í sambandinu sé mikilvæg fyrir sameiginlegan árangur.

Barroso fagnaði því að í umræðunni í aðdraganda þjóðaratkvæðisins hefðu skoskir stjórnmálamenn og kjósendur ítrekað lagt áherslu á vilja sinn til þess að vera áfram hluti af ESB þó að Skotland hefði slitið sig frá breska konungdæminu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert