Meintur hrellir fannst látinn

Kate og Gerry McCann foreldrar Madeleine McCann
Kate og Gerry McCann foreldrar Madeleine McCann AFP

Bresk kona sem sökuð var um að hafa ofsótt foreldra Madeleine McCann í beinni útsendingu á Sky fannst látin í hótelherbergi í Leicester á laugardag. Ekki er talið að lát hennar hafi borið að með grunsamlegum hætti

Í frétt Sky News á miðvikdag var Brenda Leyland sökuð um að hafa áreitt Kate og Gerry McCann á Twitter í tengslum við hvarf dóttur þeirra úr hótelíbúð í Portúgal árið 2007.

Í fréttinni kemur fram að Leyland sé ein margra sem hafa áreitt McCann-hjónin á netinu í tengslum við hvarfið. Martin Brunt, fréttamaður Sky, kom að Leyland þar sem hún var að setjast inn í bifreið sína og spurði hana hvers vegna hún hefði áreitt þau.

Eftir þögn í smátíma svaraði Leyland því til að hún ætti rétt á því. Samkvæmt fréttinni á Leyland að hafa áreitt þau undir heitinu „sweepyface“. 

Þegar fréttamaðurinn tjáði henni að sönnunargögnum um þetta hefði verið komið til lögreglunnar svaraði Leyland að nú væri nóg komið.

Síðar bauð Leyland fréttamanninum heim til sín án þess að hann fengi að vera með kvikmyndatökumann. Þar sagðist hún hafa verið með spurningar til McCann-fjölskyldunnar sem hún vildi fá svör við. Hún sagðist vonast til þess að hún hefði ekki brotið lög með ummælum sínum. 

Í frétt Sky var tekið fram að hún væri ekki sú versta sem hefði hrellt fjölskylduna á netinu.

Samkvæmt Guardian hafa nágrannar hennar sagt að hún farið að heiman og ekki sést síðan þá á heimili sínu. 

Brenda Leyland var 63 ára gömul og lætur eftir sig son. Á Facebook skrifaði sonur hennar: „Ég elska þig mamma og ég mun alltaf sakna þín.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert