Kafbátaleitin enn árangurslaus

AFP

Leitað verður áfram í sænska skerjafirðinum að óþekktum kafbát í dag en leitin bar engan árangur um helgina, samkvæmt frétt sænska ríkissjónvarpsins.

Tomas Ries, lektor í varnar- og öryggismálum, segir að viðbrögð Rússa veki meiri athygli en að hann telji að hætta sé á ferðum. Hann telur að sænski herinn hafi brugðist rétt við og það sé aðdáunarvert hversu hratt var brugðist við í jafnviðamiklu verkefni og þetta er.

Í tilkynningu sem rússneska varnarmálaráðuneytið sendi frá sér í gær kemur fram að ekki sé um rússneskan kafbát að ræða.

Ries segir að það hafi hins vegar komið berlega í ljós að herinn er vanbúinn, til að mynda vanti sárlega fleiri þyrlur.

Að hans sögn bendir allt til þess að um rússneskt sjófar sé að ræða þó svo enn hafi ekki komið staðfesting þar á.

Dag Enander, sem fer með upplýsingamál hjá sænska hernum, segir í samtali við sænska ríkissjónvarpið að áfram verði leitað dag og nótt. Allt frá Möja að Ornö. Hann vill ekki tjá sig um hvort leitin beinist einnig að fólki, það er hvort einhverjum hafi tekist að komast frá borði meints kafbáts og upp á land.

Meira en tvö hundruð manns, tundurspillar og þyrlur tóku þátt í leitinni, en óstaðfestar fregnir hermdu að kafbáturinn hefði sent frá sér neyðarkall á rússneskri rás.

Á fréttamannafundi sem sænska varnarmálaráðuneytið stóð fyrir í gær hafnaði Anders Grenstad varaaðmíráll því að slíkt neyðarkall hefði heyrst, en sagði að ráðuneytið hefði fengið þrjá „örugga“ sjónarvotta að „erlendri neðansjávarstarfsemi“. Birti ráðuneytið ljósmynd í gær, sem átti að sýna kafbátinn skammt undan ströndum Svíþjóðar, og kom fram að ljósmyndin hefði verið kveikjan að leitinni.

Þá greindu sænskir fjölmiðlar frá því í gær að öryggislögreglan og leyniþjónusta hersins leituðu að svartklæddum manni sem náðist á ljósmynd þar sem hann óð út í sjóinn með bakpoka á þeim slóðum þar sem kafbáturinn átti að hafa verið.

 Frétt SvD.se

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert