Fundu ástina í skugga fellibylsins

Jovelyn Luana og Joel Aradana eru meðal þeirra sem munu kveikja á kertum við fjöldagröf þeirra sem fórust í fellibylnum Haiyan á Filippseyjum fyrir ári. Bæði misstu þau fjölskyldu sína í óveðrinu. En þau munu minnast ástvina sinna hönd í hönd. Þau fundu ástina í skugga fellibylsins og hafa öðlast hamingju og von að nýju.

Luana missti börnin sín sex og eiginmann til þrettán ára í ofsaveðrinu. Haiyan er einn öflugasti stormur sem mælst hefur á jörðinni. Hann sópaði burtu flestu í þorpi Luana.

Um einum kílómetra í burtu frá þorpinu hennar fór fellibylurinn um sjávarþorp Aradana. Eiginkona hans og tvö börn létu lífið.

Hinn 8. nóvember 2013 gekk fellibylurinn Haiyan á land á Filippseyjum og olli gríðarlegu tjóni. 7.350 manns létust eða er enn saknað. Um mannskæðustu náttúruhamfarir síðasta ár var að ræða en bylurinn sópaði burtu fátæklega byggðum húsum víðs vegar um landið. 

Í kjölfarið var þjóðin í sorg og Luana og Aradana voru meðal þeirra sem syrgðu ástvini sína. 

Luana segist hafa íhugað sjálfsvíg. Hún lét þó ekki verða af því einfaldlega af því að hún fann engan stað til að binda reipið í. 

En svo fundu þau hvort annað. 

Fyrir sex mánuðum lágu leiðir þeirra saman. Þau voru þá bæði að taka þátt í atvinnuskapandi verkefni sem mannúðarsamtök höfðu sett á laggirnar. Fornöfn þeirra eru lík og þess vegna var auðvelt að brjóta ísinn.

 „Ég sagði við hann: Ég er Jo og þú ert Jo. Ég er ekkja og þú ert ekkill. Svo við hljótum að vera ætluð hvort öðru,““ rifjar Luana upp og brosir breitt. 

Luana, sem er 31 árs, segist hafa fyllst óvæntri von eftir að hafa kynnst Aradana en hann er níu árum yngri en hún.

„Við erum með svipaða sýn á lífið, hann er ástúðlegur, umhyggjusamur og ábyrgðarfullur,“ segir Luana. Hún segir að Aradana leggi sig fram í vinnu sinni sem sjómaður en hjálpi einnig við heimilisstörfin.

„Hann yrði frábær faðir,“ segir Luana. 

Aradana metur félagsskap hennar mikils. „Þar sem hún kann vel við mig og ég kann vel við hana, þá sagði ég henni að það væri betra fyrir okkur að búa saman svo við getum haldið áfram að lifa lífinu,“ segir Aradana.

 Þau segjast tala um sorg sína og missi. „Við deilum bæði hamingju og söknuði,“ segir Luana. 

Börn Luana sem létust í fellibylnum voru á aldrinum 19 mánaða til tólf ára. Þá missti hún einnig eiginmann sinn, móður, systur og þrjú frændsystkini. 

Flest líkin fundust nokkrum dögum eða vikum eftir fellibylinn. Það segir hún hafa hjálpað til í sorgarferlinu.

En Aradana hefur enn ekki fundið lík eiginkonu sinnar, sjö ára sonar og 13 ára dóttur.  Tvær dætur hans lifðu óveðrið af og búa hjá afa sínum og ömmu.

En Haiyan varð einnig til þess að Aradana og Luana misstu allar eigur sínar. Nú búa þau í litlum kofa á því svæði sem varð einna verst úti í hamförunum. Svæðið er skilgreint sem hættusvæði og þar má í raun ekki búa. Hins vegar hafast þúsundir fátækra manna við þar.

Luana missti vinnu sína en hefur nú smátekjur af því að bjóða nágrönnum upp á hand- og fótsnyrtingu.

Aradana fær einstaka sinnum verkefni í byggingarvinnu en fer þess á milli á sjóinn á litlum bát sem hann fékk gefins frá góðgerðarsamtökum. 

Yfirvöld á Filippseyjum stefna að því að flytja sem flesta frá hættusvæðinu og útvega fólki betra húsnæði. Enn hefur ekkert gerst í þeim efnum. 

„Það er erfitt að byggja allt upp á nýjan leik. Við töpuðum öllu, við fórum aftur á byrjunarreit,“ segir Luana. 

 Luana og Aradana ætla að giftast. Þau eiga líka von á barni í maí. 

„Ég er svo ánægð að vera ólétt,“ segir Luana og heldur í hönd unnustans. „Ég vil stóra fjölskyldu. Ég sakna hávaðans sem fylgir því að hafa börn í kringum sig.“

Aradana segist hlakka til að barnið komi í heiminn. „Ég vona að þetta verði strákur því ég missti einkason minn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert