„En svo byrjaði hún að öskra“

Yara var aðeins átta ára.
Yara var aðeins átta ára. Skjáskot af Expressen

Faðir Yöru, sem fannst látin á heimili sínu í Svíþjóð fyrr á þessu ári, telur að móðurbróðir stúlkunnar hafi ekki slegið stúlkuna eða önnur börn. Eiginkona hans sé aftur á móti vond manneskja, það hafi hann vitað frá upphafi.

Móðurbróðirinn og eiginkona hans eru ákærð fyrir að bera ábyrgð á dauða Yöru. Aðalmeðferð í málinu hélt áfram í dag og var Mohammed Alnajjar, faðir Yöru meðal þeirra sem bar vitni. Aftonbladet greinir frá málinu. 

Var hann meðal annars beðinn um að segja frá lífi Yöru áður en til átaka kom á Gaza árið 2012. Sagði hann að stúlkan hefði haft það mjög gott og hann hefði getað útvegað henni fæði og klæði. Hún hefði verið fyrsta barn foreldra sinn og jafnframt fyrsta barnabarnið og hefði verið elskuð af öllum.

Árið 2012 varð hún aftur á móti fyrir andlegum skaða þegar skólinn hennar var sprengdur upp. Þá var hún aðeins um 50 til 70 metrum frá skólanum, en hún sat í bíl ásamt fjölskyldu sinni. „Hún brást ekki við þegar í stað. En svo byrjaði hún að öskra,“ sagði pabbi hennar og bætti að eftir þetta hefðu ýmis vandamál komið upp.

Sagði hann meðal annars að eftir þetta hefði stúlkan verið fjandsamleg í garð systkina sinna og hún hefði hætt að leika við þau. Hún var fús til að yfirgefa Gaza og því ákváðu foreldrar hennar að senda hana til Svíþjóðar.

Mohammed sagðist telja útilokað að móðurbróðir Yöru hafi slegið barn en segir eiginkonu hans aftur á móti vera slæma manneskju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert