Alvarlegt og óásættanlegt brot

Stefan Löfven forsætisráðherra Svíþjóðar og Sverker Göranson, yfirmaður sænska hersins …
Stefan Löfven forsætisráðherra Svíþjóðar og Sverker Göranson, yfirmaður sænska hersins á blaðamannafundi í morgun. AFP

Staðfest hefur verið að kafbátur sem kom inn í sænska skerjafjörðinn í október hafi verið á vegum erlends ríkis. Um sé að ræða alvarlegt og óásættanlegt brot erlends ríkis, segir yfirmaður sænska hersins, Sverker Göranson. Ekki er hægt að staðfesta hvert sé þjóðerni kafbátsins.

Forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löven, varaði erlend ríki við að reyna slíkt aftur. „Þeir sem íhuga að koma inn í sænska landhelgi ólölega skulu gera sér grein fyrir þeirri gríðarlegu hættu sem það getur haft í för með sér fyrir þá sem þar eiga hlut að máli,“ sagði Löven á blaðamannafundi í dag. Dagens næringsliv greinir frá.

Leitin að kafbátnum í október var gríðarlega viðamikil þar sem varðskip, þyrlur og yfir 200 hermenn tóku þátt. Talið var að um rússneskan kafbát væri að ræða en rússnesk yfirvöld neituðu því staðfastlega og sökuðu Hollendinga um að eiga hlut að máli.

Löfven segir að Svíar muni verja yfirráðasvæði sitt með öllum mögulegum ráðum. Her landsins hafi yfir þeim vopnum að ráða og skorti ekki heimildir til þess að bregðast við af fullum þunga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert